Fyrirtæki Trumps sakfellt

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP/ Eva Marie Uzcategui

Fjölskyldufyrirtæki Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, var í gær sakfellt fyrir skattalagabrot af hæstarétti New York-ríkis í Bandaríkjunum.

Trump var ekki ákærður í málinu en niðurstaðan er síður en svo hagfelld fyrir fyrrverandi forsetann sem hefur gefið kost á sér í embættið á ný fyrir kosningar árið 2024.

Trump Organization og Trump Payroll voru bæði sakfelld fyrir að reka svikastarfsemi í þrettán ár og voru ákæruliðirnir 17 talsins. Kom m.a. fram í niðurstöðu hæstaréttar að fyrirtækin hefðu svikið undan skatti með fölsun gagna.

Fjármálastjóri vitni

Allen Weisselberg, sem gegndi starfi fjármálastjóra hjá Trump Organization í áraraðir, hafði þegar játað brot á 15 ákæruliðum er varða skattalagabrot og bar hann vitni í málinu. Í framburði hans kom þó ekkert fram sem bendlaði Trump við brotin.

Weisselberg samþykkti að greiða tvær milljónir bandaríkjadala í sektir, eða því sem nemur 284 milljónum íslenskra króna, og sæta fimm mánaða fangelsisvist í skiptum fyrir framburð sinn.

Í færslu á samfélagsmiðli sínum skrifaði Trump að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með dóminn og að Trump Organization bæri enga ábyrgð á skattsvikum Weisselberg og hyggst hann áfrýja dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert