Fyrrverandi þingkona í valdaránshópnum

Um þrjú þúsund þýskir lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum í …
Um þrjú þúsund þýskir lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum í morgun. AFP/Tobias Schwarz

Hópurinn sem handtekinn var í umfangsmiklum aðgerðum þýsku lögreglunnar, grunaður um að leggja á ráðin um valdarán og árás á þinghúsið í Berlín, er sagður hafa sett á fót hryðjuverkasamtök í nóvember á síðasta ári.

Var markmiðið að umbylta núverandi stjórnskipan í Þýskalandi og koma á fót sinni eigin ríkisstjórn undir stjórn prinsins Heinrich XIII sem er sagður annar höfuðpaur hinna nýstofnuðu hryðjuverkasamtaka.

Höfðu skipulagt nýja stjórnskipan

Samtökin höfðu þegar skipulagt nýja stjórnskipan en í áætlunum var m.a. minnst á ýmis ráðuneyti, þar á meðal heilbrigðis-, dómsmála- og utanríkisráðuneytið, að sögn þýsks saksóknara.

Töldu samtökin að einungis yrði hægt að hrinda áformunum í framkvæmd með hernaðaraðgerðum og ofbeldi gegn kjörnum fulltrúum landsins sem myndu m.a. fela í sér aftökur.

Birgit Malsack-Winkemann, fyrrverandi þingkona öfgahægriflokksins AfD, var meðal þeirra sem voru handtekin. Talið er að hún hafi átt að gegna embætti dómsmálaráðherra í nýrri stjórnskipan.

Sérsveit lögreglu við húsleit í Þýringalandi í morgun.
Sérsveit lögreglu við húsleit í Þýringalandi í morgun. AFP

27 til viðbótar liggja undir grun

Um þrjú þúsund þýskir lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum í morgun þar sem 25 voru handteknir, grunaðir um að skipuleggja valdarán og árás á þinghúsið í Berlín.

Yfir 130 húsleitir fóru fram en þýskir fjölmiðlar segja aðgerðirnar þær umfangsmestu sem lögreglan hefur gripið til vegna öfgasamtaka. Þá voru tveir handteknir í Austurríki og Ítalíu. 27 manns til viðbótar liggja undir grun um að eiga hlut að máli.

Þeir sem voru handteknir eru sagðir liðsmenn í öfga-hægrisinnuðu Reichsbürger-samtökunum. Lögreglan hafði ekki undir höndum upplýsingar um nafnið á hinum nýju hryðjuverkasamtökum sem stofnuð voru í nóvember.

Ætluðu að ræna heilbrigðisráðherranum

Lögreglan er talin hafa komist á snoðir um valdaránið og árásina þegar að upp komst um skipulagningu mannráns í apríl þar sem glæpahópur, sem kallar sig United Patriots, og er einnig hluti af Reichsbürger-samtökunum, kom við sögu.

Til stóð að ræna Karl Lauterbach heilbrigðisráðherra og skapa ástand sem gæti kallað fram borgarastyrjöld í Þýskalandi.

mbl.is