Gert að skrifa handrit um hvernig hann myrti frænku sína

Asbjørn Rachlew í viðtali við hlaðvarpið Takk og lov sem …
Asbjørn Rachlew í viðtali við hlaðvarpið Takk og lov sem vefsíðan Juridika heldur úti ásamt greinasafni um lögfræðileg málefni. Ljósmynd/Juridika

„Þetta mál var lögreglunni erfitt. Engum augljósum vísbendingum var til að dreifa. Engum vitnum.“ Þetta sagði Asbjørn Rachlew, kennari við norska lögregluháskólann, rannsakandi við Mannréttindastofnun Háskólans í Ósló og fremsti sérfræðingur Noregs í yfirheyrslutækni, þegar hann bar vitni við Héraðsdóm Haugalands og Sunnhörðalands í gær.

Málið sem þar er nú til aðalmeðferðar er hið voveiflega manndrápsmál á Karmøy sem hófst með því að Birgitte Tengs, 17 ára gömul stúlka, fannst hrottalega myrt og svívirt á víðavangi þar í eynni 6. maí 1995.

Eins og mbl.is hefur rakið í ívitnaðri umfjöllun snúast réttarhöldin nú um hugsanlega sekt manns á sextugsaldri, Johny Vassbakk, sem handtekinn var í fyrrahaust eftir að kaldmálahópur norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos, „cold case gruppa“, hafði lagst yfir málið á nýjan leik. Hefur Vassbakk setið inni síðan og bíður nú dóms að loknum málflutningi fyrir héraðsdómi.

Birgitte Tengs fannst hrottalega myrt á Karmøy 6. maí 1995. …
Birgitte Tengs fannst hrottalega myrt á Karmøy 6. maí 1995. Er ráðgátan um ódæðismanninn að leysast tæpum 30 árum síðar? Ljósmynd/Úr einkasafni

Annar maður, sem í öllum fréttaflutningi af málinu í tæp 30 ár hefur aðeins gengið undir heitinu „frændinn“, var hins vegar til umræðu í héraðsdómi í gær. Eins og nafnið gefur til kynna er sá frændi hinnar myrtu og féll grunur á hann snemma í rannsókninni.

Fóru leikar svo að frændinn hlaut 14 ára dóm í Héraðsdómi Karmøy árið 1997 og var auk þess dæmdur til að greiða fjölskyldu Tengs háar bætur. Áfrýjaði hann áfellisdómnum til Lögmannsréttar Gulaþings sem sneri niðurstöðu héraðsdóms árið 1998, sýknaði frændann en tók enga afstöðu til bótahluta dómsins sem stóð því óhaggaður. Allar götur þar til nú í nóvember þegar bótahlutinn var loks dæmdur af, tæpum aldarfjórðungi eftir sýknu.

Lausnin verður eftirsóknarverð

Játning frændans kom fram eftir að lögregla hafði yfirheyrt hann linnulítið í 17 sólarhringa. Vitnið Rachlew hóf mál sitt með því að hengja mynd af Birgitte Tengs upp í héraðsdómi í gær, er það vani hans þegar hann fjallar um yfirheyrslur í manndrápsmálum og myndina af Tengs hengdi hann síðast upp í Brasilíu fyrir nokkrum dögum þar sem hann hélt fyrirlestur um sérgrein sína.

Blóðbletturinn á sokkabuxum Birgitte Tengs sem gæti hafa valdið straumhvörfum …
Blóðbletturinn á sokkabuxum Birgitte Tengs sem gæti hafa valdið straumhvörfum í málinu í kjölfar nýrrar DNA-rannsóknar í Austurríki. Ljósmynd/Kripos

„Hugsið ykkur að vinna með mál í tvö ár og komast hvorki lönd né strönd á meðan setið er undir þrýstingi frá öllum Noregi um að leysa þetta mál. Við slíkar aðstæður verður lausnin mjög eftirsóknarverð,“ sagði Rachlew fyrir héraðsdómi þar sem hann var beðinn um að leggja mat á yfirheyrslur frændans og ytri umgjörð þeirra.

Fimmta hvert mál, sem lýkur með því að sakborningur hlýtur dóm þrátt fyrir sakleysi, er að sögn Rachlew sprottið af falskri játningu.

„Hver rannsakandi hefur sinn yfirheyrslustíl. Hægt er að fara margar leiðir við að yfirheyra manneskju og það furðulega er að margar þeirra ná settu markmiði sínu – játningu,“ sagði Rachlew en stjórnandi yfirheyrslna frændans var rannsóknarlögreglumaðurinn Stian Elle sem á sínum tíma var annálaður fyrir árangursríka yfirheyrslutækni.

Hann fór því næst yfir bandaríska rannsókn, „Innocence project“, og lýsti því hvernig falskar játningar hefðu komið við sögu í 22 prósentum 362 mála þar sem saklausir sakborningar hlutu fangelsisdóma. Enn fremur væri sá eiginleiki falskra játninga, að spilla öðrum sönnunargögnum, vandamál.

Martraðir um höfuðlausa frænku

Fór Rachlew því næst yfir tímabilið 17. febrúar til 20. mars 1997 en á þeim rúma mánuði var frændinn yfirheyrður í rúmlega 200 klukkustundir án þess að verjandi hans væri til staðar. Hjá því var komist með því að kalla yfirheyrslurnar ekki yfirheyrslur. Þær voru „óformleg samtöl“ án hljóð- og myndupptöku. Enginn verjandi þurfti því að vera til staðar. Þessi óformlegu samtöl voru milli frændans og Stians Elle einna.

Maður á sextugsaldri er nú grunaður um að hafa myrt …
Maður á sextugsaldri er nú grunaður um að hafa myrt Tengs árið 1995. Sá heitir Johny Vassbakk og hefur verið nafngreindur í norskum fjölmiðlum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Fyrir lögmannsrétti voru minnisblöð Elle lögð fram þar sem fram kom að frændinn sætti einangrunarvist, honum var neitað um lestur námsbóka og bannað að horfa á knattspyrnuleiki.

Rachlew lýsti því hvernig Elle hefði hægt en örugglega brotið frændann niður þar til hann fékk síendurteknar martraðir um að frænkan látna, Birgitte Tengs, kæmi höfuðlaus út úr veggjum fangaklefans og vitjaði hans.

Skilaboðin frá Elle voru einföld, martraðirnar héldu áfram þar til frændinn byrjaði að segja frá. „En hann var búinn að segja endalaust frá,“ sagði Rachlew, „hann þrjóskaðist ekki við að segja frá. En hann sagði ekki frá því sem lögreglan vildi að hann segði frá,“ hélt hann áfram.

Á minnisblöð sín skrifaði Elle: „Ég segi honum að martraðirnar haldi áfram.“

Kvikmyndahandrit verður til

„Þetta var hluti af tækninni,“ útskýrði Rachlew fyrir héraðsdómi og sagði frá því að frændanum hefði verið talin trú um að enginn tryði honum auk þess sem foreldrar hans hefðu breytt framburði sínum og dregið til baka það sem hafði verið fjarvistarsönnun hans.

Því næst tók Elle að fá frændanum verkefni milli óformlegu samtalanna svokölluðu. Um nætur, eftir að samtölum var lokið, átti hann að skrifa kvikmyndahandrit um hvernig hann myrti frænku sína í maí 1995. Handritið fór að taka á sig mynd með óþekktum drápsmanni. Er fram liðu stundir fór Elle að taka þátt í rituninni og fyrr en varði var óþekkti drápsmaðurinn orðinn að frændanum.

Að því kom nótt eina að frændinn skrifaði játningu sína. „Og ég segi „játningu“ innan gæsalappa,“ sagði Rachlew, „vegna þess að þetta var engin játning.“

Sænski geðlæknirinn Åsgård

Eftir að hafa hrakið yfirheyrsluaðferðir Stians Elle tók sérfræðingurinn til við sænska geðlækninn Ulf Åsgård og vinnulag hans. Hafði geðlæknirinn dregið upp svokallaðan prófíl, eða persónuleikamynd, af frændanum og lýst honum þar sem frávíkjanda (n. avviker).

„Því miður var hann álitinn sérfræðingur og tók sér það hlutverk. Hann sagði yfirheyrslumönnum hvernig ætti að yfirheyra frændann til að knýja fram játningu. Síðar þurfti hann svo að verja það starf sem hann sjálfur hafði hannað,“ sagði Rachlew.

Mál Birgitte Tengs og Tinu Jørgensen, 17 og 20 ára …
Mál Birgitte Tengs og Tinu Jørgensen, 17 og 20 ára gamalla norskra kvenna sem fundust myrtar í Karmøy og Klepp í Vestur-Noregi árin 1995 og 2000, voru á tímabili talin tengjast þegar rannsókn málanna hófst á ný árið 2016 að undirlagi Kripos. Samsett ljósmynd/Úr einkasöfnum

Leiðandi spurningar og blekkingar hafi verið hryggjarstykkið í vinnu geðlæknisins svo sem þegar Stian Elle sagði frændanum blákalt að hann gæti sannað að frændinn væri hinn seki. Það gat hann þó engan veginn. Þess í stað spurði hann frændann spurninga á borð við „Hvað finnst þér um að sífellt komi fram nýjar upplýsingar sem vitna gegn þér?“ þegar staðreyndin var sú að ekki stóð steinn yfir steini í rannsókninni.

Síðasta hálmstráið

Nú stendur fyrir dyrum að frændinn sjálfur komi fyrir héraðsdóm og beri vitni í næstu viku þar sem dómendur skoða nú málið frá öllum hliðum í úrslitatilraun til að draga sekt eða sakleysi ákærða Vassbakks fram í dagsljósið. Fleiri eru hálmstrá Kripos í máli Birgitte Tengs ekki, hann er það allra síðasta.

Arvid Sjødin, lögmaður frændans, er hins vegar efins og í gær greindi Dagbladet frá því að frændinn íhugaði að neita að bera vitni. „Hann hefur engan áhuga á að sitja þarna eins og einhver blóraböggull á meðan ásakanirnar dynja á honum. En hann vill samt sjá hvað kemur fram,“ sagði lögmaðurinn við Dagbladet.

Lögregla og ákæruvald leggja þó ríka áherslu á að frændinn komi ekki við sögu í nýju rannsókninni og Rachlew sló botninn í sinn vitnisburð í gær, um vitnisburð frændans, með svofelldum orðum:

„Ég hef rannsakað fjölda falskra játninga og það kemur mér á óvart að hann brotnaði ekki fyrr. Ég er ekki sá fyrsti sem er þeirrar skoðunar.“

NRK

NRKII (yfirheyrslulíkanið frá FBI (2018))

NRKIII (skaðabótakrafan dæmd af)

Dagbladet

TV2

Dagsavisen

mbl.is