Brennpunkt afhjúpar umfangsmikla vændisstarfsemi

„Nuddstofurnar“ heitir þáttur Brennpunkt sem nú er kominn í umferð …
„Nuddstofurnar“ heitir þáttur Brennpunkt sem nú er kominn í umferð eftir tveggja ára rannsókn aðstandenda hans á umfangi vændis á norskum nuddstofum. Þrjár af hverjum fjórum stofum í Bergen reyndust bjóða upp á vændi væri eftir því leitað. Skjáskot/Brennpunkt, NRK

Brennpunkt, rannsóknarfréttamennskuþáttur norska ríkisútvarpsins NRK, hefur afhjúpað umfangsmikla vændisstarfsemi á norskum nuddstofum en rannsókn aðstandenda þáttarins leiddi í ljós að kynlífsþjónusta er í boði á þremur af hverjum fjórum nuddstofum í Bergen.

Rannsókn Brennpunkt, sem staðið hefur síðastliðin tvö ár og náð til nuddstofa um gervallt landið, leiðir í ljós að 80 slíkar stofur séu í raun vændishús þar sem farandvændiskonur bjóða þjónustu sína, margar stofur tengist enn fremur mansali og starfsemi þar sem þriðji maður hefur milligöngu og hagnast á (n. hallikvirksomhet).

Líti ekki á sig sem fórnarlömb

Fréttamenn Brennpunkt voru viðstaddir þegar þátturinn var sýndur lögreglunni í Bergen. „Við lítum kannski á þær sem fórnarlömb en það gera þær ekki sjálfar,“ segir Jørgen Henriksen, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í vesturumdæminu, í samtali við NRK og segir frá því að lögreglan vinni stöðugt að því að finna og uppræta vændisstarfsemi með aðstoð faghópa (n. kompetansegrupper) um allt land.

Hann kveður lagabókstafinn, eins og hann er í dag, vera lögreglunni vissa áskorun á vettvangi þess að nálgast fórnarlömbin. Vísar ákæruvaldsfulltrúinn þar til ákvæða hegningarlaga um þá sem skipuleggja og hagnast á vændi, hallikparagrafen eins og sú grein kallast í daglegu tali.

Er þar kveðið á um að refsa skuli með sektum eða allt að sex ára fangelsi hverjum þeim er falbýður vændi annarra, leigir út húsnæði með vitneskju um að ætlun leigutaka sé að nota það undir vændi eða sýnir af sér stórfellt gáleysi við útleigu til slíkrar starfsemi. Þá skuli refsa með sektum eða sex mánaða fangelsi hverjum þeim sem ótvírætt býður, miðlar eða leitar eftir vændisþjónustu.

Umtalsverð skuggatölfræði

„Mansal er eitt af því andstyggilegasta í samfélagi okkar og við verðum að gera allt til að koma í veg fyrir það. Okkur er auðvitað kunnugt um þessa starfsemi en það er umfangið sem í þessu tilfelli er óhugnanlegt,“ segir Rune Bakervik, oddviti bæjarstjórnar Bergen, þegar hann heyrir tölfræði Brennpunkt.

Bakervik hefur fundað með lögreglunni í Bergen um málið og vill fá Emilie Enger Mehl dómsmálaráðherra að borðinu. NRK hefur ekki tekist að ræða við ráðherra um málið enn sem komið er.

Henriksen ákæruvaldsfulltrúi kveður marga firra sig ábyrgð þegar vændi er annars vegar. „Þetta er markaður í Noregi og fólk græðir peninga á þessu. Ábyrgðin liggur mjög víða,“ segir hann, en Bjarte Schrøen, yfirlögregluþjónn mansalsdeildar vesturumdæmis lögreglunnar, óttast að skuggatölfræðin sé umtalsverð á vændismarkaðnum.

„Það er alveg á hreinu og það sem við höfum áhyggjur af er fólkið sem verið er að þvinga út í þessa starfsemi og siglir fram hjá okkar eftirliti,“ segir yfirlögregluþjónninn.

NRK

NRK (umfjöllun Brennpunkt)

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert