Brittney Griner laus úr rússnesku fangelsi

Griner var handtekin í febrúar á þessu ári.
Griner var handtekin í febrúar á þessu ári. AFP/Alexander Zemlianichenko

Bandaríska körfuknattleikskonan Brittney Griner er nú laus úr rússnesku fangelsi eftir að fangaskipti fóru fram á milli Rússlands og Bandaríkjanna. Það var Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sem greindi frá nýfengnu frelsi Griner á Twitter.

„Hún er örugg. Hún er í flugvél. Hún er á leiðinni heim,“ tísti forsetinn.

Grin­er var hand­tek­in á flugvellinum í Moskvu í fe­brú­ar á þessu ári eftir að rafrettuhylki með kannabisolíu fannst í farangri hennar. Handtakan átti sér stað aðeins nokkr­um dög­um áður en Rúss­ar réðust inn í Úkraínu

Átti að flytja á fanganýlendu 

Í ágúst dæmdi rússneskur dóm­stóll Griner í níu ára fang­elsi. Var hún í dag sak­felld fyr­ir smygl og vörslu fíkni­efna og jafnframt gert að greiða eina millj­ón rúbla í sekt, sem jafn­gild­ir rúm­lega tveim­ur millj­ón­um ís­lenskra króna.

Lögmaður Griner sagði fyrir rétti að magn efnisins sem hún kom með til landsins hefði verið rétt yfir leyfilegu hámarki, en hún var hins vegar fundin sek um smygl og vörslu verulegs magns af fíkniefnum. Sjálf sagðist Griner hafa gert heiðarleg mistök, hún hafi verið að flýta sér og verið undir miklu álagi.

Í nóvember var svo greint frá því að yfirvöld í Rússlandi ætluðu að flytja Griner á fanganýlendu. Þá greindi Karine Jean-Pierre, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, frá því að bandarísk yfirvöld hefðu gert Rússum „veglegt tilboð“ til að greiða úr máli Griner.

mbl.is