Fyrsti mótmælandinn tekinn af lífi í Íran

Mótmælendur veifa gömlum fána Írans til að andmæla stjórnvöldum.
Mótmælendur veifa gömlum fána Írans til að andmæla stjórnvöldum. AFP/Bart Maat

Fyrsta opinbera aftakan í tengslum við mótmælin í Íran fór fram í morgun þegar Mohsen Shekari var hengdur. Mótmælandinn var sakaður um að hafa hamlað umferð um aðalgötu höfuðborgarinnar Teheran og stungið liðsmann Basij-hersveitanna með eggvopni. 

Var hann í kjölfarið sakfelldur fyrir fjandskap gegn Guði af byltingardómstólnum í Íran. Aðgerðasinni segir dóminn yfir Shekari hafa verið kveðinn upp eftir sýndarréttarhöld og að málsmeðferðin hafi ekki farið fram í samræmi við lög.

Mahmood Amiry-Moghaddam, forstjóri íranskra mannréttindasamtaka sem eru staðsett í Noregi, segir að yfirvöld í Íran gætu gripið til daglegra aftaka ef alþjóðasamfélagið grípur ekki inn í með hröðum og árangursríkum þvingunum.

Ellefu dæmd til dauða

Ellefu hafa verið dæmd til dauða í tengslum við mótmælin sem hóf­ust eft­ir að 22 ára göm­ul kona, að nafni Mahsa Am­ini, lést í haldi lög­regl­unn­ar.

Talið er að hún hafi lát­ist af völd­um of­beld­is lög­reglu, en hún var hand­tek­in fyr­ir meint brot á lög­um um höfuðslæður kvenna þar sem hár­lokk­ur henn­ar stóð út und­an slæðunni. 

Fleiri en 200 hafa látið lífið í mót­mæl­un­um og þúsund­ir hafa verið fang­elsaðar. 

mbl.is