Herinn í viðbragðsstöðu vegna verkfalla

Sjúkraflutningamenn hyggjast einnig leggja niður störf eins og fleiri stéttir …
Sjúkraflutningamenn hyggjast einnig leggja niður störf eins og fleiri stéttir í þessum mánuði. Fólk er ósátt við sín kaup og kjör á verðbólgutímum. AFP

Bresk stjórnvöld greindu frá því í dag að unnið sé að því að búa herinn undir að styðja við sjúkraflutninga og landamæraeftirlit vegna fyrirhugaðra verkfalla sem eiga að taka gildi í þessum mánuði. 

Suella Braverman, innanríkisráðherra landsins, hefur hvatt landsmenn til að láta flugferðir eiga sig yfir jólin þar sem tollverðir við vegabréfaeftirlit munu bætast í hóp þeirra sem hyggjast leggja niður störf. 

Hún sagði við fréttamenn að ef það yrði af þessum verkföllum þá myndi það valda alvarlegum röskunum á ferðáætlunum mörg þúsund landsmanna yfir jólin. 

Unnið er að því núna að þjálfa um 2.000 hermenn í því að styðja við vegabréfaeftirlit. 

Suella Braverman, innanríkisráðherra Bretlands.
Suella Braverman, innanríkisráðherra Bretlands. AFP

Breska varnarmálaráðuneytið á nú í samræðum við heilbrigðisráðuneytið eftir að sjúkraflutningamenn samþykktu einnig að leggja niður störf í þessum mánuði, rétt eins og hjúkrunarfræðingar. 

Talsmaður Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, segir að svona áframhaldandi verkföll muni valda raski hjá öllum. Hann ítrekaði þá afstöðu ríkisstjórnarinnar að koma ekki til móts við óhóflegar launahækkanir. Það eigi einnig við um herinn sem þarf að stíga inn svo allt kerfið fari ekki í frost. 

Sunak gaf til kynna í gær að ríkisstjórnin væri með í undirbúningi nýtt lagafrumvarp sem bannar verkföll hjá starfsfólki sem sinnir mikilvægustu innviðum landsins. Stéttarfélög hafa barist fyrir launahækkunum á sama tíma og verðbólga í landinu hefur ekki verið hærri í marga áratugi. 

Í dag eru það aðeins lögregluþjónar, hermenn og fangaverðir sem mega ekki lögum samkvæmt leggja niður störf í kjarabaráttu. 

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, segir að unnið sé að gerð …
Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, segir að unnið sé að gerð nýs lagafrumvarps sem bannar fleiri mikilvægum starfsstéttum að leggja niður störf í kjaradeilum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert