Límdu sig við flugbrautina

Flugvöllurinn í Munchen.
Flugvöllurinn í Munchen. Ljósmynd/Wikipedia.org

Umhverfisverndarsinnar límdu sjálfa sig við flugbrautina á flugvelli þýsku borgarinnar München í morgun. Einnig tókst þeim að ryðjast inn á flugbraut flugvallarins Berlin-Brandenburg, að sögn flugmálayfirvalda.

Í München voru fjórir aðgerðasinnar límdir við norðurhluta flugbrautarinnar í um 45 mínútur áður en þeir voru losaðir og handteknir, að sögn talsmanns flugvallarins.

Hann bætti við að lítilsháttar tafir hafi orðið á flugi en engu hafi verið aflýst.

Í Berlín sagði talsmaður að „þó nokkrir“ hefðu komist inn á flugbrautina en að atvikið hefði ekki haft truflun á flugi í för með sér.

Umhverfisverndarsamtökin The Last Generation, eða Síðasta kynslóðin, sögðust í yfirlýsingu hafa verið að mótmæla „aðild stórra ríkja að loftslagshamförunum“.

„Við getum ekki lengur setið hjá aðgerðalaus á meðan fáar ríkar manneskjur sökkva heiminum í hyldýpið fyrir hönd okkar allra og eyðileggja sameiginlegt lífsviðurværi okkar,“ sagði talsmaður samtakanna, Aimee van Baalen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert