1.400 milljarðar í hernaðaraðstoð til Taívan

Xi Jinping, forseti Kína, og Joe Biden Bandaríkjaforseti fyrr á …
Xi Jinping, forseti Kína, og Joe Biden Bandaríkjaforseti fyrr á árinu. AFP/Saul Loeb

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt frumvarp um varnarmál sem meðal annars veitir 10 milljarða Bandaríkjadala, eða rúma 1.400 milljarða króna, í hernaðaraðstoð til Taívan. Einnig á að flýta vopnasölu til landsins.

Öldungadeild Bandaríkjaþings þarf að samþykkja frumvarpið og Joe Biden Bandaríkjaforseti að undirrita til að það verði að lögum. Ef það gerist fær Taívan aðstoð upp á tvo milljarða Bandaríkjadala á ári frá 2023 til 2027.

Einnig fær Biden með frumvarpinu leyfi til að útvega Taívan hluta af vopnabirgðum Bandaríkjanna fyrir allt að einn milljarð Bandaríkjadala á ári, ásamt annarri þjónustu, þar á meðal heræfingum.

Öldungadeildarþingmaðurinn Bob Menendez
Öldungadeildarþingmaðurinn Bob Menendez AFP/Dew Angerer/Getty

Að sögn öldungadeildarþingmannsins Bob Menendez munu lögin, ef þau verða samþykkt, „efla varnarsamband Bandaríkjanna og Taívan verulega.“

Mao Ning, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, sagði Kínverja vera afar mótfallna frumvarpinu. Þeir segja Taívan vera hluta af sínu landsvæði og hefur Xi Jinping, forseti Kína, heitið því að það muni sameinast Kína á nýjan leik.

mbl.is