Ákærður fyrir manndráp á götu í Ósló

Fevziye Kaya Sørebø var lektor í tungumálum við OsloMet-háskólann í …
Fevziye Kaya Sørebø var lektor í tungumálum við OsloMet-háskólann í Ósló og löggiltur túlkur. Hún er tyrknesk en hafði verið búsett í Noregi um langt árabil. Sørebø lætur eftir sig tvær dætur á táningsaldri en maður hennar, Svein Jaran Sørebø, lést árið 2018. Ljósmynd/Úr einkasafni

Rúmlega fertugur maður hefur verið ákærður fyrir að skjóta Fevziye Kaya Sørebø, þá fimmtuga að aldri, til bana úti á götu í Frogner í Ósló að morgni 28. apríl í fyrra.

Lögreglan í Ósló hafði uppi mikinn viðbúnað þegar henni bárust tilkynningar um skothvelli á götu í hinu rólega Frogner-hverfi á níunda tímanum á miðvikudagsmorgni þennan apríldag í fyrra og liðu ekki nema nokkrar mínútur þar til grunaði var handtekinn á E18-brautinni en vitni höfðu séð manninn aka á brott á ofsahraða eftir að hann skaut Sørebø mörgum skotum með hálfsjálfvirkri skammbyssu.

Þegar rannsókn málsins fór að taka á sig mynd kom í ljós að tengsl voru á milli grunaða og hinnar myrtu. Hann er byggingarverktaki og hafði tekið að sér að byggja við hús Sørebø og eiginmanns hennar sem nú er látinn.

Ákæran tvær síður

Ekki fór það betur en svo að verktakinn hafði byggingarleyfi að engu og byggði mun hærra en leyfi hafði fengist til. Fór málið fyrir héraðsdóm sem komst að þeirri niðurstöðu að verktakinn væri bótaskyldur um upphæð sem nemur 176 milljónum íslenskra króna eins og mbl.is fjallaði um á sínum tíma.

Ákæran, sem nú hefur litið dagsins ljós, er tveggja blaðsíðna löng og er verktakinn þar ákærður fyrir manndráp af ásetningi og það á almannafæri sem orðið getur til refsiþyngingar. Þá er hann ákærður fyrir brot á vopnalögum, nánar tiltekið fyrir að hafa borið skotvopn á almannafæri auk þess að hafa í vörslum sínum skotvopn án tilskilins leyfis frá lögreglustjóra og að hafa haft skotfæri fyrir þetta tiltekna skotvopn í vörslum sínum.

Ákærði hefur tekið sakarafstöðu í málinu og kveðst sekur. „Við munum nýta aðalmeðferðina til að fara ofan í saumana á höfuðþáttum sakarefnisins og refsikröfu okkar,“ segir Aud Gravås héraðssaksóknari í samtali við norska dagblaðið VG.

Talinn ábyrgur gerða sinna

Ole Petter Drevland, verjandi ákærða, kveður ákæruna í samræmi við játningu sakborningsins og þar komi því fátt á óvart. Ákærða og fjölskyldu hans hefur verið kynnt ákæran auk þess sem ákærði sætti geðrannsókn meðan á rannsókn málsins stóð og var þar talinn ábyrgur gerða sinna á verknaðarstundu.

Hin myrta, Fevziye Kaya Sørebø, starfaði sem löggiltur túlkur og þýðandi auk þess að vera lektor við OsloMet-háskólann. Hún var af tyrknesku bergi brotin en hafði búið um árabil í Noregi, norskur ríkisborgari með cand.mag-gráðu í tungumálum frá Háskólanum í Ósló. Hún varð ekkja þegar maður hennar lést árið 2018 og lætur eftir sig tvær dætur á unglingsaldri.

VG

TV2

Dagsavisen

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert