Brittney Griner komin til Texas

Griner var sleppt úr rússnesku fangelsi í gær.
Griner var sleppt úr rússnesku fangelsi í gær. AFP/Russian State Media

Bandaríska körfuknattleikskonan, Brittney Griner, er komin til Texas eftir að hafa verið sleppt úr rússnesku fangelsi vegna fangaskipta á milli Rússlands og Bandaríkjanna sem fóru fram í gær.

Við komuna til Texas var Griner flutt í nálæga herstöð þar sem hún mun gangast undir læknisskoðun.

Í skiptum fyrir Griner fengu Rússar afhentan Victor Bout, alræmdan vopnasala, sem afplánaði 25 ára dóm í Bandaríkjunum fyrir að hafa útvegað hryðjuverkasamtökum og uppreisnarhópum vopn.

AFP/Russian State Media

Fangaskiptin fóru fram á flugvellinum í Abu Dhabi og myndir frá rússneskum ríkismiðlum sýna hvar Griner og Bout ganga framhjá hvort öðru í átt að flugvélunum sem fluttu þau áfram til heimalanda sinna.

Griner var handtekinn á flugvellinum í Moskvu í febrúar á þessu ári eftir að rafrettuhylki með kannabisolíu fannst í farangri hennar. Í ágúst var hún svo dæmd í níu ára fangelsi í Rússlandi.

mbl.is