Slökun sóttvarnareglna vekur blendnar tilfinningar með Kínverjum

Götutannlæknir sinnir sjúklingi á markaði í Shenyang í Liaoning-héraðinu í …
Götutannlæknir sinnir sjúklingi á markaði í Shenyang í Liaoning-héraðinu í Austur-Kína í dag svo eitthvað eru Kínverjar farnir að slaka á vörnum sínum. AFP

Kínverjar óttast nú nýjar bylgjur kórónuveirusmita í kjölfar þess er þarlend stjórnvöld slökuðu á klónni í sóttvarnaaðgerðum sínum í gær sem staðið hafa linnulítið frá því snemma í faraldrinum. Tilslakanirnar fylgja þó í kjölfar fjölmennra mótmæla í nóvember sem spruttu af langvarandi þreytu almennings á sóttvörnum og stífum reglum samhliða þeim. Var þar um að ræða skýrustu birtingarmynd almennrar óánægju síðan Xi Jinping tók við forsetaembætti fyrir áratug.

Lýðheilsustofnun Kína hefur nú gefið það út að smitað fólk með væg einkenni megi nú dvelja í sóttkví á heimilum sínum auk þess sem ekki er lengur skylda að gangast undir linnulítil próf og tilkynna niðurstöðuna gegnum þar til gert smáforrit ætli fólk sér að vera á ferð um heimabyggð sína eða landið.

„Óttinn fer ekki bara“

Áhrif tilslakananna hafa ekki látið á sér standa, miðasala í ferðir og tómstundaathafnir hvers konar hefur tekið hressilega við sér auk þess sem fólk skirrist nú ekki við að greina frá því á samfélagsmiðlum að það hafi smitast af Covid – slíkt gat haft alvarlegar afleiðingar fyrir aðeins örfáum dögum og jafnvel leitt til útskúfunar viðkomandi.

Úrtöluraddir hafa þó einnig heyrst og ótti látið á sér kræla sem fyrr segir. „Ég veit að Covid er ekki svo skelfilegt lengur, en það er samt enn sem áður smitandi og þjáningarfullt,“ skrifar einhver á kínverska samfélagsmiðilinn Weibo. „Óttinn sem fyllti hjörtu okkar fer ekki bara einn, tveir og þrír.“

„Of margir eru jákvæðir!“ skrifar annar og á ekki við að samborgarar hans horfi björtum augum til framtíðar heldur að jákvæðar smitgreiningar séu of margar. Þá hafa vertar veitingastaða í stórborgum tekið sér frest til að létta á sóttvörnum sínum og hyggjast bíða átekta og sjá hver þróunin verði samfara þessu nýfengna frelsi landsmanna.

Úr 40.000 í 21.000 smit

Nýsmit í Kína í fyrradag, á miðvikudaginn, voru 21.165 sem voru færri smit en daginn áður og vel undir þeim 40.052 tilfellum sem greindust 27. nóvember, á sunnudaginn í síðustu viku. Fækkunina má þó auðveldlega tengja færri prófunum sem fylgja vægari reglum.

Hlutabréfavísitölur í Kína og Hong Kong hækkuðu lítillega í gær sem hugsanlega er skammgóður vermir þar sem hagfræðingar reikna með samdrætti í hagvexti næstu mánuði vegna smitfjölgunar samfara nýjum sóttvarnareglum og spá ekki landrisi á þeim vettvangi fyrr en vel er liðið á árið 2023.

South China Morning Post

Reuters

The Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert