„Þarf að ná samkomulagi

Vladimír Pútín á fundi héraðsleiðtoga í ráðhúsi Bishkek í Kirgistan …
Vladimír Pútín á fundi héraðsleiðtoga í ráðhúsi Bishkek í Kirgistan í dag. AFP/Vyacheslav Oseledko

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í dag að á endanum þyrfti að gera samkomulag til að binda enda á átökin í Úkraínu, níu mánuðum eftir að stjórnvöld í Kreml hófu „sérstaka hernaðaraðgerð“ sína þar.

„Traust er auðvitað nánast á núlli... en að lokum þarf að ná samkomulagi þegar upp er staðið. Ég hef margoft sagt að við erum tilbúin í þessa samninga og við erum opin fyrir þeim,“ sagði Pútín á leiðtogafundi héraðsleiðtoga í höfuðborg Kirgistans.

Óhress með ummæli Merkel

Ummæli Pútíns komu til vegna ummæla Angelu Merkel, fyrrverandi kanslara Þýskalands, þar sem hún sagði í samtali við dagblaðið Die Zeit að Minsk-samningurinn frá 2014 hefðu verið „tilraun til að gefa Úkraínu tíma“ og að Kænugarður hefði notað hann „til að verða sterkari“.

Fyrrverandi kanslari Þýskalands, Angela Merkel var í viðtali við þýska …
Fyrrverandi kanslari Þýskalands, Angela Merkel var í viðtali við þýska dagblaðið Die Zeit og lét þar orð falla sem hugnuðust Pútín illa. AFP/Jens Schlueter

Pútín sagðist hafa orðið fyrir „vonbrigðum“ með ummæli Merkel og bætti við að hann „gerði alltaf ráð fyrir því að ríkisstjórn Þýskalands hegðaði sér heiðarlega“.

„Eftir að slíkar fullyrðingar hafa komið fram er spurningin þessi: Hvernig getum við verið sammála? Og er einhver annar til sem er sammála? Hverjar eru tryggingarnar?“ sagði Pútín.

mbl.is