Vélmenni muni taka yfir þrifastörfin

Elon Musk, forstjóri Twitter.
Elon Musk, forstjóri Twitter. Samsett mynd

Ræstitæknir hjá Twitter sem var nýlega sagt upp segir að teymi Elon Musk, forstjóra samfélagsmiðilsins, hafi upplýst hann um að vélmenni muni koma til með að sinna þrifum hjá fyrirtækinu.

Í síðustu viku var hópur ræstitækna leystur frá störfum hjá Twitter án þess að fá greiddar starfslokagreiðslur, eftir að hafa hótað verkfallsaðgerðum vegna slæmrar framkomu í sinn garð. 

Lítið er um laus störf í borginni og er fólkið hrætt um að fá ekki aðra vinnu á næstunni. Jólin eru framundan og sjá sumir ekki fram á að geta komið mat á borðið eða pökkum undir tréð. Þá eru enn aðrir hræddir um hafa ekki efni á leigunni sinni eða nauðsynlegum lyfjum. BBC greinir frá.

Í fylgd öryggisvarðar að þrífa skrifstofur

Líkt og fleiri starfsmenn sem fengu reisupassann eftir að Elon Musk tók yfir fyrirtækið, þá hafa ræstitæknarnir sögu að segja af framkomu yfirmanna í sinn garð.  

Starfsmennirnir störfuðu áður áhyggjulaust innan fyrirtækisins og var vinnuumhverfið „vinalegt“ en eftir yfirtöku Musk tók ýmislegt að breytast, að sögn Julio Alvarado fyrrum starfsmanns.

Öryggisvörður var ráðinn til þess að fylgja Alvarado meðan hann þreif ákveðin svæði og skrifstofur innan höfuðstöðvanna.

„Fólk var áhyggjulaust en núna erum við hrædd,“ segir Alvarado við BBC, sem hefur nú áhyggjur af reikningum sem safnast upp og fjölskyldunni sinni í Mexíkó sem hann hefur verið að senda mánaðarlegur greiðslur.

„Ég mun ekki geta greitt leiguna mína,“ segir Alvarado. „Ég mun heldur ekki vera sjúkratryggður. Ég veit ekki hvað ég mun gera.“

Hefur ekki efni á sykursýkislyfjunum sínum 

Juana Laura Chavero Ramirez hafði starfað hjá Twitter í fimm ár áður en hún missti vinnuna í síðustu viku. Hún er með sykursýki og hefur nú verulegar áhyggjur af því að hún hafi ekki efni á lyfjunum sínum.

Scott Wiener, öld­unga­deildaþingmaður í Kali­forn­íu, segir starfsfólk sem vinni við hreingerningar hafi mátt þola hörmulega framkomu innan fyrirtækisins.

David Chiu, lögmaður hjá San Francisco, segir að borgin sé að rannsaka hvort að lög hafi verið brotin við uppsagnirnar.

mbl.is