Bandarískur íþróttablaðamaður lést í Katar

Grant Whal var 48 ára þegar hann lést.
Grant Whal var 48 ára þegar hann lést. AFP/Mike Lawrie

Bandaríski íþróttablaðamaðurinn Grant Wahl lést í Katar í gærkvöldi. Hann hneig niður á fjölmiðlasvæðinu á Lusail leikvanginum þar sem hann var fylgjast með leik Argentínu og Hollands á heimsmeistaramótinu í fótbolta.

Viðbragðsaðilar komu strax aðvífandi, hlúðu að honum og veittu viðeigandi meðferð sem hélt áfram á meðan hann var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn. BBC greinir frá.

Fyrstu fregnir herma að Wahl, sem var 48 ára, gæti hafa fengið hjartaáfall en það hefur ekki verið staðfest.

Whal greindi frá því á heimasíðu sinni á mánudag að hann hefði verið veikur í tíu daga og væri kominn á sýklalyf vegna lungnabólgu. Wahl sagði líkama sinn hafa sagt hingað og ekki lengra eftir að hann hafði verið kvefaður í langan tíma. Hann hefði leitað til læknis og verið greindur með lungnabólgu.

Wahl vakti töluverða athygli fyrr á mótinu þegar hann reyndi að komast inn á knattspyrnuleikvang í Katar í bol með regnbogafána til stuðnings hinsegin fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert