Ótti og óbeit eftir að sprengjumaður fékk frelsið

Götumynd frá Balí eftir sprengjutilræðið 12. október 2002 þar sem …
Götumynd frá Balí eftir sprengjutilræðið 12. október 2002 þar sem 202 létust. AFP

Bylgja ótta og óbeitar fer nú um áströlsku þjóðina eftir að Umar Patek var sleppt lausum úr fangelsi þar sem hann hefur setið síðan hann var handtekinn eftir sprengjutilræði á tveimur næturklúbbum á indónesísku eyjunni Balí 12. október 2002 sem kostaði 202 mannslíf en 88 fórnarlambanna voru Ástralar.

„Líf mitt breyttist til frambúðar,“ segir Andrew Csabi við breska ríkisútvarpið BBC en hann missti tvo útlimi í tilræðinu auk þess sem vinir hans létust.

„Mörg okkar fá líf okkar aldrei til baka“

Patek var sakfelldur fyrir að hafa búið sprengjurnar til á vegum hryðjuverkasamtakanna Jemaah Islamiah og var á flótta í heilan áratug áður en hann var handtekinn árið 2012 og dæmdur til 20 ára fangelsisvistar. Nú er hann hins vegar frjáls ferða sinna eftir að hafa afplánað tíu ár. Indónesísk yfirvöld segja hann breyttan mann sem ekki sé samfélaginu háskalegur lengur.

„Þessi náungi fær lífið sitt aftur. Mörg okkar fá líf okkar aldrei til baka,“ segir Jan Laczynski sem missti fimm vini sína í tilræðinu árið 2002 og kveðst illa brugðið. Segir hann frelsi Pateks „annað spark í magann“ eftir að Abu Bakar Ba'asyir var sleppt úr fangelsi fyrr á árinu en hann sat inni fyrir annað brot. Hins vegar er talið að hann hafi verið aðalskipuleggjandi ódæðisins á Balí þótt hann hafi þverneitað. Fékk hann samtals fimm og hálfs árs dóm fyrir tilræðið á Balí og sprengingu á Marriott-hótelinu í Jakarta í mars 2003.

Brisbane Times

BBC

6PR

mbl.is