Fjármálaeftirlit Bandaríkjanna (SEC) hefur ákært Sam Bankman-Fried, stofnanda rafmyntakauphallarinnar FTX, sem var handtekinn á Bahamaeyjum í gær, fyrir fjársvik með því að svíkja milljarða Bandaríkjadali af viðskiptavinum kauphallarinnar.
Í ákærunni er Bankman-Fried sagður hafa byggt spilaborg á grundvelli blekkinga.
Undanfarnar vikur hefur Bankman-Fried, sem er þrítugur, hunsað ráðgjöf lögfræðinga og komið fram í mörgum fjölmiðlum, oftast í gegnum fjarfundarbúnað frá Bahamaeyjum þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru. Þar hefur hann reynt að útskýra hvers vegna það fór á hausinn.
Eftir að fyrirtækið hafði verið metið á 32 milljarða Bandaríkjadala var leiðin niður á við hröð eftir að frétt birtist í byrjun nóvember um tengsl á milli FTX og Alameda, verðbréfafyrirtækis sem er einnig stýrt af Bankman-Fried.
Í fréttinni kom fram að efnahagsreikningur Alameda var að miklu leyti byggður á gjaldmiðlinum FTT sem var búinn til af FTX og hafði ekkert sjálfstætt verðgildi.
FTX sótti um gjaldþrotaskipti í Bandaríkjunum í síðasta mánuði sem varð til þess að margir sem voru þar í þjónustu gátu ekki tekið út peningana sína. Samkvæmt málshöfðun í síðasta mánuði skuldaði FTX stærstu 50 viðskiptavinum sínum næstum 3,1 milljarð dala, eða um 445 milljarða íslenskra króna.