Rússar senda tónlistarmenn í fremstu víglínu

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Rússnesk stjórnvöld hyggjast senda tónlistarmenn í fremstu víglínu stríðsins í Úkraínu í því skyni að efla starfsanda hermanna.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands tilkynnti um „framlínu skapandi sveitar“ í vikunni, en í henni verða bæði söngvarar og hljóðfæraleikarar, að því er BBC greinir frá. Hefur almenningur verið hvattur til að gefa hljóðfæri sín. 

Sergei Shoigu varnarmálaráðherra heimsótti hersveitir í fremstu víglínu á dögunum. Heimsóknin kemur í kjölfar þess að embættismenn breska varnarmálaráðuneytisins sögðu að lélegur starfsandi væri áfram verulegur veikleiki í stórum hluta rússneska hersins.

Gæti truflað athygli hermanna

Ákvörðun Rússa er sögð vera í samræmi við sögulega notkun hertónlistar og skipulagðrar skemmtunar til að auka starfsanda í hersveitum.

Breskir embættismenn hafa þó velt fyrir sér hvort nýja sveitin muni öllu heldur trufla athygli hermanna, sem hafa haft áhyggjur af mjög hárri mannfallstíðni, lélegri forystu, skorti á búnaði, skotfærum og skýrleika um markmið stríðsins.

Samkvæmt rússneska fréttamiðlinum RBC mun sveitin samanstanda af hermönnum sem hófu störf í ráðningarátaki Vladimírs Pútíns forseta, auk „atvinnulistamanna sem gengu sjálfviljugir til herþjónustu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert