„Okkur leið öllum eins og fuglum í búri“

Nemendur söfnuðust saman fyrir utan háskólasvæðið og leituðu huggunar hjá …
Nemendur söfnuðust saman fyrir utan háskólasvæðið og leituðu huggunar hjá hvert öðru. AFP/WAKIL KOHSAR

Konur í háskólanámi í Afganistan eiga erfitt með að trúa þeim fréttum sem bárust í gær að þeim hefði verið bannað að halda áfram að mennta sig, en talíbanar í landinu greindu frá því í gærkvöldi að konur mættu ekki lengur stunda háskólanám.

Kom það fram í bréfi sem ráðherra æðri menntunar sendi frá sér. En sú ákvörðun mun gilda þar til annað verður ákveðið.

AFP-fréttastofan hefur eftir hjúkrunarfræðinema að konum finnist þær hafa verið dæmdar til að lifa eins og fuglar í búri.

Öskruðu og grétu

Nemendur söfnuðust víða saman fyrir utan háskólasvæði, klæddir svörtum kuflum og með höfuðklúta, sem Talíbanar gera kröfu um. Alls staðar mátti sjá nemendur leita huggunar hjá fjölskyldu og vinum á meðan fólk reyndi að melta fréttirnar.

„Okkur leið öllum eins og fuglum í búri, við föðmuðum hvert annað, öskruðum og grétum „af hverju er þetta að gerast?“ segir Amini, 23 ára hjúkrunarfræðinemi í Kunduz, í samtali við AFP.

Hún var með þremur systrum sínum þegar þær sáu fréttirnar á samfélagsmiðlum. Tveimur þeirra hafði áður verið bannað að ganga í framhaldsskóla og sú þriðja, sem einnig hefur stundað háskólanám, fær nú ekki að halda því áfram.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra birti færslu á Twitter í gærkvöldi þar sem hún lýsti því yfir að um hörmuleg tíðindi væri að ræða. Bannið bryti gegn rétti kvenna og stúlkna til að sækja sér menntun og að þetta væri enn ein skammarleg aðgerð talíbana sem beindist gegn afgönsku þjóðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert