„Hún verður margir tugir milljóna“

Bjørn Gulstad segir bótakröfu skjólstæðings síns munu hlaupa á tugum …
Bjørn Gulstad segir bótakröfu skjólstæðings síns munu hlaupa á tugum milljóna norskra króna. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Í kjölfar dóms Lögmannsréttar Borgarþings 15. desember er Viggo Kristiansen nú í þeirri stöðu að geta krafist skaða- og miskabóta fyrir óréttmæta refsingu,“ segir Bjørn Andre Gulstad í samtali við mbl.is, lögmaður téðs Kristiansens sem hlaut þyngstu refsingu sem norsk lög leyfa fyrir aðild sína í Baneheia-málinu svokalla í Kristiansand árið 2000.

Sú aðild reyndist hins vegar engin en þá hafði Kristiansen setið inni í 20 ár og hálfu betur. Borgarþingsdómstóllinn hefur nú formlega sýknað hann af því að hafa haft nokkuð með dráp ungu stúlknanna tveggja að gera í maí árið 2000 og kemur þá að því að hafa uppi bótakröfu sem nokkrir lögmenn hafa látið í veðri vaka við fjölmiðla að verði hæstu bætur til einstaklings í sögu Noregs.

„Krafan verður auðvitað mjög há í ljósi þess að hann sat saklaus í fangelsi í yfir 20 ár,“ heldur Gulstad áfram og segir að þegar hafi náðst samkomulag um að greiða Kristiansen fyrir fram hluta upphæðarinnar, tíu milljónir norskra króna, andvirði 146 milljóna íslenskra króna. „Það er til að styðja hann áfram í lífinu og koma í veg fyrir að honum verði áfram stillt upp við vegg [sem sekum í málinu]. Þessarar greiðslu er von nú fljótlega,“ segir hann.

Vill hann spá einhverju um endanlega kröfu?

„Hún verður margir tugir milljóna króna,“ svarar Gulstad og boðar útreikninga sem taka muni heilt ár. „Næsta árið munum við Brynjar Meling lögmaður útbúa alhliða kröfu. Erfitt er að spá fyrir um hvenær hún muni liggja fyrir, það verður einhvern tímann næsta haust,“ segir Bjørn Gulstad að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert