Bátur með 180 Róhingjum á reki í meira en mánuð

Fólkið kom til Aceh-héraðs í Indónesíu í gær.
Fólkið kom til Aceh-héraðs í Indónesíu í gær. AFP/Chaideer Mahyuddin

Bátur með fleiri en 180 Róhingjum innanborðs, sem hefur verið á reki í meira en mánuð, hefur loks fengið leyfi fyrir nokkra farþega til þess að fara frá borði í Indónesíu. 

Einstaklingarnir eru flóttamenn sem lögðu af stað frá Suður-Bangladess 25. nóvember. Sex dögum síðar bilaði vél bátsins og rak hann þá í vesturátt, úr lögsögu Malasíu yfir í lögsögu Indónesíu og þaðan í Indlandshaf.

Fjölskyldur flóttamannanna gátu einstaka sinnum hringt í bátsverjana, og ásamt flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna biðluðu þau til yfirvalda í Indónesíu og á Indlandi að aðstoða fólkið. 

Róhingjarnir sögðust vera deyja úr hungri, og þá höfðu þegar margir dáið. 

Drógu bátinn í indónesíska lögsögu

Indverski sjóherinn gaf þeim mat og vatn og dró bátinn til baka í lögsögu Indónesíu, þar sem bátinn rak í sex daga í viðbót áður en Róhingjarnir fengu leyfi til þess að fara frá borði, tæplega tvö þúsund kílómetrum frá staðnum þar sem báturinn fór frá landi. 

Róhingjar, sem eru flest­ir mús­lím­ar, hafa þurft að sæta of­sókn­um …
Róhingjar, sem eru flest­ir mús­lím­ar, hafa þurft að sæta of­sókn­um í Mjan­mar, þar sem búdd­ist­ar eru í meiri­hluta, frá ár­inu 2017. AFP/Amanda Jufrian

BBC greinir frá því að um sé að ræða annan bátinn sem hefur komið til héraðsins Aceh í Indónesíu á tveimur dögum. 

Fólkið verður tímabundið vistað hjá ríkisstofnun. 

Snemma í mánuðinum sökk bátur með öðrum 180 Róhingjum innanborðs. 

Róhingjar, sem eru flest­ir mús­lím­ar, hafa þurft að sæta of­sókn­um í Mjan­mar, þar sem búdd­ist­ar eru í meiri­hluta, frá ár­inu 2017. Því hef­ur tals­verður fjöldi fólks lagt á flótta frá land­inu.

Fleiri en milljón Róhingjar búa í flóttamannabúðum í Suður-Bangladess.

Margir voru vannærðir.
Margir voru vannærðir. AFP/Amanda Jufrian
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert