Serbneskar hersveitir í „hæstu viðbragðsstöðu“

Ítalskir hermenn, sem eru hluti af alþjóðlegu friðargæsluliði NATO, standa …
Ítalskir hermenn, sem eru hluti af alþjóðlegu friðargæsluliði NATO, standa vörð við veg þar sem vegatálmar hafa verið settir upp við þorpið Rudare, skammt frá bænum Zvecan í Kósovó gær. AFP/Armend Nimani

Serbneskar hersveitir eru í „hæstu viðbragðsstöðu“, að sögn varnarmálaráðherra landsins, Milos Vucevic.

Aukin spenna ríkir á milli landanna en Kósovó lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008.

Serbnesk stjórnvöld hafa neitað að viðurkenna sjálfstæði landsins og hafa hvatt þá 120 þúsund manns af serbneskum uppruna sem búa í Kósovó til að bjóða yfirvöldum í Kósovó birginn, sérstaklega í norðurhluta landsins þar sem fólk af serbneskum uppruna er í meirihluta.

Serbneski herinn hefur oft á síðastliðnum árum verið settur í hæstu viðbragðsstöðu vegna deilna við Kósovó. Síðast gerðist það í nóvember eftir að Serbar sögðu að þó nokkrir drónar hefðu farið í lofthelgi landsins frá Kósovó.

10. desember síðastliðinn settu Serbar í norðurhluta Kósovó upp vegatálma til að mótmæla handtöku fyrrverandi lögregluþjóns sem er grunaður um að hafa tengst árás á lögregluþjóna af albönskum uppruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert