52% farþega vélarinnar greindust með veiruna

Áhöfn Air China 3. desember í fyrra á alþjóðlega flugvellinum …
Áhöfn Air China 3. desember í fyrra á alþjóðlega flugvellinum í Los Angeles í Bandaríkjunum. AFP/Frederic J. Brown

Heilbrigðisráðuneyti Ítalíu hefur ákveðið að allir farþegar sem koma til landsins frá Kína verði skimaðir fyrir kórónuveirunni.

Orazio Schillaci, heilbrigðisráðherra landsins, greindi frá þessu. Hann hefur sent bréf til Evrópuráðsins og óskað eftir samræmdum aðgerðum í Evrópu vegna kínverskra ferðamanna en þar í landi hefur verið mikið um kórónuveirusmit.

Bandarísk stjórnvöld hafa einnig gert þá kröfu að farþegar frá Kína framvísi neikvæðu kórónuveiruprófi við komu til landsins.

Skimun við kórónuveirunni í kínversku borginni Sjanghaí fyrr í mánuðinum.
Skimun við kórónuveirunni í kínversku borginni Sjanghaí fyrr í mánuðinum. AFP/Hector Retamal

Stuttu áður en ítölsk stjórnvöld tóku ákvörðun sína hafði Lazio-hérað þegar fyrirskipað að allir sem lentu á Fiumicino-flugvelli frá kínversku borgunum Peking eða Sjanghaí yrðu skimaðir við veirunni.

Það sama ákváðu heilbrigðisyfirvöld í héraðinu Lombardia vegna þeirra sem lentu á flugvellinum Malpensa, að því er dagblaðið Corriere Della Sera greinir frá. 

„Í flugi frá Peking greindust 52% farþega með Covid,“ sagði Guido Bertolaso, starfsmaður heilbrigðisyfirvalda í Lombardia.

mbl.is