Raunverulegur fjöldi látinna vegna Covid á reiki

Kínverskur ferðamaður í flugstöðvarbyggingu í ítölsku borginni Róm í gær.
Kínverskur ferðamaður í flugstöðvarbyggingu í ítölsku borginni Róm í gær. AFP/Filippo Monteforte

Enn er erfitt að segja til um hversu margir hafa látist af völdum kórónuveirunnar á heimsvísu, þremur árum eftir að fyrsta tilfellið greindist. Sérfræðingar eru þó sammála um að dauðsföllin eru mun fleiri en kemur fram í opinberum tölum.

Mismunurinn á milli opinberra og raunverulegra talna gæti aukist enn meira á nýju ári vegna þess að spálíkön búast við meira en milljón dauðsföllum í Kína. Þarlend stjórnvöld þrengdu nýverið talningu sína á fjölda þeirra sem deyr af völdum Covid-19.

Opinbera talan 6,65 milljónir

Opinberlega hafa meira en 6,65 milljónir manna látist af völdum veirunnar síðan hún greindist fyrst í Kína í desember árið 2019, að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO.

Þjóðir heimsins telja aftur á móti dauðsföll af völdum Covid-19 á mismunandi hátt, auk þess sem aðferðir hafa breyst eftir því sem liðið hefur á faraldurinn.

Skimun við kórónuveirunni í New York fyrr í mánuðinum.
Skimun við kórónuveirunni í New York fyrr í mánuðinum. AFP/Spencer Platt/Getty

Antoine Flahault, yfirmaður alþjóðastofnunar heilbrigðismála við Genfar-háskóla, segir það geta verið mjög snúið að tengja dauðsföll við Covid.

Tilfelli sjúklings sem deyr á sjúkrahúsi í þróuðu ríki, sem þegar hefur greinst með Covid, gæti hljómað eins og augljóst dauðsfall af völdum veirunnar, en það er oft ekki þannig og læknar „hafa oftast ekki miklar upplýsingar“ um hvernig þeir eiga að snúa sér þegar kemur að greiningu, sagði Flahault við AFP.

14 til 21 milljón

Þess í stað hafa vísindamenn reynt að bera saman heildarfjölda dauðsfalla af öllum mögulegum orsökum sem hefur verið skráður frá árinu 2020 við þann fjölda sem búast hefði mátt við ef enginn faraldur hefði orðið.

Með því að nota þessar tölur greindu rannsakendur frá WHO frá því í tímaritinu Nature fyrr í mánuðinum að 14,83 milljónir viðbótar-dauðsfalla hefðu orðið af völdum Covid á árunum 2020 til 2021. Það er næstum því þrisvar sinnum hærri tala en þær 5,4 milljónir dauðsfalla sem hafa orðið af völdum veirunnar á þessum tveimur árum, samkvæmt opinberum tölum.

Grímuklæddur maður á gangi í indversku borginni Nýju-Delí 23. desember.
Grímuklæddur maður á gangi í indversku borginni Nýju-Delí 23. desember. AFP/Money Sharma

Rannsakendur við bandarísku stofnunina Health Metrics and Evaluation sögðu frá því í mars síðastliðnum að miðað við þeirra mat væri talan enn hærri, eða 18,2 milljónir.

Flahault sagði að jafnvel þessi háa tala gæti „mögulega verið vanmat“ á raunverulegum fjölda dauðsfalla.

Fjöldi látinna hefur aukist minna á þessu ári en áður. Samkvæmt tölfræði frá tímaritinu The Economist, sem er uppfærð reglulega, er reiknað með því að 21 milljón viðbótar-dauðsföll hafi orðið síðan faraldurinn hófst, sem er 3,1 sinnum hærra en opinberar tölur segja til um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert