Tate handtekinn í Rúmeníu

Andrew Tate var handtekinn í Rúmeníu í kvöld.
Andrew Tate var handtekinn í Rúmeníu í kvöld.

Andrew Tate, fyrrverandi heimsmeistari í sparkboxi, var handtekinn ásamt bróður sínum, Tristan, af rúmensku lögreglunni fyrr í kvöld. Eru bræðurnir grunaðir um að hafa átt þátt í mansali og nauðgunum.

Samkvæmt rúmenskum fjölmiðlum voru bræðurnir færðir til yfirheyrslu vegna gruns um að þeir hafi staðið að skipulagðri glæpastarfsemi, sem meðal annars fólst í því að konur voru neyddar til þess að taka þátt í framleiðslu klámmyndbanda.

Tate vakti athygli fyrr á árinu fyrir umdeildar yfirlýsingar sínar á samfélagsmiðlum, sem þóttu bera vott um kvenhatur og var hann bannaður af samfélagsmiðlunum Facebook, TikTok og Twitter. Tate fékk hins vegar að snúa aftur á síðarnefnda miðilinn eftir að auðkýfingurinn Elon Musk festi kaup á honum.

Bræðurnir voru einnig yfirheyrðir í apríl þegar lögreglan fann tvær stúlkur sem sögðu að þeim hefði verið haldið gegn vilja sínum. Bræðrunum var hins vegar sleppt, þó að rannsókn málsins héldi áfram.

Tate hefur síðustu daga átt í netrifrildi við umhverfissinnann Gretu Thunberg. Herma óstaðfestar fregnir að rúmenska lögreglan hafi getað staðfest að Tate væri staddur í Rúmeníu út frá myndskeiði sem hann tók upp til þess að svara Thunberg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert