Ástralir krefja farþega frá Kína um neikvæð próf

Kínversk stjórnvöld slökuðu á sóttvarnartakmörkunum í desember og hefur smitum …
Kínversk stjórnvöld slökuðu á sóttvarnartakmörkunum í desember og hefur smitum í landinu fjölgað verulega. AFP

Stjórnvöld í Ástralíu munu frá og með 5. janúar krefjast þess að farþegar sem koma frá Kína framvísi neikvæðu kórónuveiruprófi fyrir komu til landsins.

Ástralía bætist þar með í hóp fleiri landa, en Bretar, Frakkar, Spánverjar og Ítalir gera kröfu um slíkt hið sama. Yfir 97 prósent fullorðinna í Ástralíu hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. 

Mark Butler, heilbrigðisráðherra Ástralíu, sagði ráðstöfunina vera til þess að vernda landið fyrir hættu á hugsanlegum nýjum afbrigðum veirunnar og vegna ástandsins í Kína.

Sjúkrahús full og líkbrennslustofur ofhlaðnar

Kínversk stjórnvöld slökuðu á sóttvarnartakmörkunum í desember og hefur smitum í landinu fjölgað verulega í kjölfarið.

Kínversk sjúkrahús hafa síðan þá fyllst af öldruðum sjúklingum, líkbrennslustofur ofhlaðnar, auk þess sem mörg apótek hafa orðið uppiskroppa með lyf.

Bandaríkjamenn telja kínversk stjórnvöld ekki veita nægar upplýsingar um þróun faraldursins, svo sem smita og afbrigða. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur beðið Kína að leggja fram nákvæm gögn um stöðu faraldursins í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert