„Crossfit-prestur“ vinsæll á Instagram

Sjúkrahúspresturinn Oskar Arngarden.
Sjúkrahúspresturinn Oskar Arngarden. AFP/Jonathan Nackstrand

Sænski sjúkrahúspresturinn Oskar Arngarden hefur vakið mikla athygli á Instagram þar sem hann veitir yfir 30 þúsund fylgjendum sínum ráðgjöf, bæði hvað varðar líkamsrækt og andleg málefni.

„Guð er í hverjum einasta króki og kima í mínu lífi,“ segir „crossfit-presturinn“, eins og hann kallar sig á samfélagsmiðlinum. Hann er 38 ára og starfar á háskólasjúkrahúsinu í Uppsölum.

„Í Biblíunni segir að líkaminn er musterið þitt. Hluti af því er að hugsa með sér: „Hvernig ætti ég að hugsa um mitt musteri?““.

Oskar Arngarden skoðar líkamsræktarmyndband á Instagram-síðu sinni.
Oskar Arngarden skoðar líkamsræktarmyndband á Instagram-síðu sinni. AFP/Jonathan Nackstrand

Á sama tíma og neikvæðar hliðar samfélagsmiðla eru flestum kunnar segir Arngarden að þeir geti einnig verið góður staður til að ræða um „trú og heilsu, og ....tilvist okkar og andlegt heibrigði“.

Á reikningi hans á Instagram birtir hann einnig andlegar hugleiðingar sínar og talar um heilbrigðan lífsstíl.

Instagram-síðan hans varð fljótt mjög vinsæl og honum leist ekkert á blikuna til að byrja með, árið 2019. „Ég missti dálítið stjórnina á þessu... Á nokkrum mánuðum var ég kominn  með 160 þúsund fylgjendur og ég er frekar feiminn, þannig að mér fannst þetta ekkert sérstaklega þægilegt.“

Oskar Arngarden skoðar símann sinn.
Oskar Arngarden skoðar símann sinn. AFP/Jonathan Nackstrand

Mörg ummælanna voru um vel byggðan líkama hans, húðflúrin hans og líkindi hans við ástralska leikarann Chris Hemsworth.

Á sama tíma glímdi hann við þunglyndi. Endaði hann á því að loka reikningnum sínum.

Árið 2020 sneri hann aftur á Instagram með skýrari hugmynd um skilaboðin sem hann vildi koma á framfæri, sérstaklega fyrir fylgjendur sína í Svíþjóð.

„Sagan okkar er þannig að kirkjan var miðpunkturinn og fólk kom í kirkjuna,“ segir hann. „Núna þurfum við að finna leið til að kirkjan geti komið til fólksins. Og hvar er fólkið? Það er á samfélagsmiðlum.“

Oskar Arngarden í kapellu sjúkrahússins í Uppsölum í Svíþjóð.
Oskar Arngarden í kapellu sjúkrahússins í Uppsölum í Svíþjóð. AFP/Jonathan Nackstrand

Sumir fylgjenda hans hafa samband við hann beint í gegnum Instagram og ræða við hann um ýmislegt sem því liggur á hjarta. 

„Ég vil eiga samskipti við fólk, heyra það sem það hefur gengið í gegnum og þær sögur sem það hefur að segja. Mér finnst það vera blessun, bara að geta hlustað á þetta," segir Arngarden.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert