Evrópsk hitamet riða til falls

Skíðabrekka sker sig úr innan um græna akra í Schruns …
Skíðabrekka sker sig úr innan um græna akra í Schruns í Austurríki 28. desember en Austurríkismenn hafa síst farið varhluta af miklum hlýindum í Evrópu síðustu daga. AFP/Dietmar Stiplovsek

Hitamet falla um gervallt meginland Evrópu fyrstu daga nýs árs og má þar nefna 18,9 stiga hita í Varsjá, höfuðborg Póllands, 16,4 í Hvíta-Rússlandi og 25,1 stig í Bilbao á Spáni sem er rúmum tíu stigum yfir meðalhita þar á þessum árstíma.

Á meðan ískuldi hefur herjað á íbúa Bandaríkjanna og Kanada yfir hátíðirnar er allt aðra sögu að segja handan Atlantshafsins þar sem hitamet hafa fallið í Hollandi, Liechtenstein, Litháen, Lettlandi, Tékklandi, Póllandi, Danmörku og Hvíta-Rússlandi.

Fólk beðið að spara vatnið

Að þessu kvað svo rammt að hitastigið á nýársdag í Bilboa var á pari við meðalhita júlímánaðar og í Barcelona og víðar í Katalóníu sáu yfirvöld sig knúin til að biðja borgarana að takmarka vatnsnotkun sína.

Í Sviss fór hitinn í 20 gráður og hafði töluverð áhrif á vinsæl skíðasvæði í Alpafjöllunum, aðeins fáeinum dögum eftir að Bretland, Frakkland og Spánn lýstu árið 2022 það hlýjasta síðan mælingar hófust í löndunum. Þannig voru allir mánuðir ársins, að desember undanskildum, heitari en meðalhiti þeirra sagði til um í Bretlandi.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert