Tesla sektuð um 317 milljónir

AFP

Suður-kóreska samkeppniseftirlitið gaf út í dag að það hygðist sekta rafbílafyrirtækið Teslu um 2,2 milljónir wona, sem jafngildir um 317 milljónum króna, vegna ófullnægjandi upplýsingagjafar til viðskiptavina sinna.

Fyrirtækið á að hafa veitt villandi upplýsingar um drægni og hleðslutíma rafhlaðna, sem rafbílarnir ganga fyrir. Einnig á fyrirtækið að hafa haldið fram villandi staðhæfingum um sparnað þess að reka rafmagnsbíl, frekar en bifreið sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti.

Samkvæmt samkeppniseftirlitinu er drægni Teslu-bíla um helmingi minni heldur en auglýst er á suður-kóreska söluvef fyrirtækisins. Teslu yfirsást einnig að upplýsa viðskiptavini sína um þau áhrif sem veðurfar, gerð hleðslutækis og ástand rafhlaðna getur haft á þann tíma sem tekur að hlaða bílinn.

Samkvæmt yfirlýsingum Teslu í gær seldi fyrirtækið rúmlega 1,3 milljónir rafmagnsbíla árið 2022. Það er met hjá fyrirtækinu sem er í eigu Elons Musks, og er það 40 prósenta söluaukning frá í fyrra. 

Þrátt fyrir aukna sölu hefur gengi Teslu á hlutabréfamarkaðnum vestanhafs farið lækkandi upp á síðkastið. Árið 2022 lækkaði gengi bréfa fyrirtækisins um 65 prósent.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert