Mæðgur fundust látnar

Elin Sofie og Tone Løvåsen, 28 og 61 árs, fundust …
Elin Sofie og Tone Løvåsen, 28 og 61 árs, fundust látnar annan jóladag í íbúð í Kragerø í Vestfold og Telemark. Ljósmynd/Úr einkasafni

Ingrid Wiik, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í suðausturumdæminu í Noregi, segir fjölda spurninga ósvarað í kjölfar þess er mæðgurnar Elin Sofie og Tone Løvåsen, 28 og 61 árs, fundust látnar í íbúð í Kragerø, syðst í fylkinu Vestfold og Telemark, annan dag jóla.

Er allt á huldu um dánarorsökina enn sem komið er, en þó ljóst að mæðgurnar, sem létust með tveggja daga millibili, 23. og 25. desember, þjáðust báðar af lungnasjúkdómi. Bráðabirgðakrufning leiddi ekki í ljós hvaða sjúkdómur þar var á ferð.

Sjúkrabifreið kom á vettvang

„Við vonumst til að framhald rannsóknarinnar geti varpað ljósi á það sem gerðist,“ segir Wiik enn fremur við norska ríkisútvarpið NRK. Fimm dögum áður en mæðgurnar fundust látnar vitjaði sjúkrabifreið þeirra og hafa ættingjar þeirra gagnrýnt harðlega að þær hafi þá ekki verið fluttar á sjúkrahús eða veitt sú heilbrigðisþjónusta sem hugsanlega hefði orðið þeim lífsbjörg.

Að sögn talsmanns sjúkrabifreiðaþjónustunnar í Telemark framkvæmdi sjúkraflutningafólkið allar nauðsynlegar prófanir áður en það fór af vettvangi.

Grunde Wegar Knudsen bæjarstjóri ræddi einnig við NRK og sagði íbúa Kragerø harmi slegna og áfallahjálparteymi bæjarins í viðbragðsstöðu. Honum er kunnugt um að mæðgurnar fengu til sín sjúkrabifreið fyrir jól og segir illt hafi eitthvað misfarist þar. Rannsókn lögreglu muni þó skera úr um hver urðu örlög mæðgnanna um jólin.

NRK

ABC Nyheter

VG

mbl.is