Culiacán logar eftir handtöku

Mexíkósk yfirvöld hafa haft hendur í hári Ovidio Guzmán, sonar hins alræmda fíkniefnabaróns Joaquin „El Chapo“ Guzmán, í kjölfar aðgerðar sem lauk með því að hlutar mexíkósku borgarinnar Culiacán voru nánast lagðir í rúst og mátti sjá reyk þar stíga til himins víða í dag auk þess sem bílar stóðu í ljósum logum.

Guzmán, sem er hátt settur innan Sinaloa-fíkniefnahringsins, var áður handtekinn í október 2019 en látinn laus að kröfu Andrés Manuel López Obrador forseta þegar allt ætlaði um koll að keyra í óeirðum í kjölfar handtökunnar.

Fólk hvatt til að halda sig heima

Loka þurfti flugvellinum í Culiacán hluta dagsins í dag vegna skotbardaga sem þar geisaði og tilkynntu stjórnendur þar á Twitter að það hefði verið gert af öryggisástæðum eftir að flugvél flugfélagsins Aeromexico varð fyrir skotum.

Mexíkóskir hermenn á verði utan við skrifstofu ríkissaksóknara í Mexíkóborg …
Mexíkóskir hermenn á verði utan við skrifstofu ríkissaksóknara í Mexíkóborg í kjölfar handtökunnar. AFP/Nicolas Asfouri

Þá var skólum borgarinnar lokað og fólk hvatt til að halda sig heima vegna skotbardaga sem víða brutust út í kjölfar handtökunnar sem átti sér stað aðeins fáeinum dögum fyrir fyrirhugaða heimsókn Joes Bidens Bandaríkjaforseta og Justins Trudeau, forsætisráðherra Kanada, til Mexíkóborgar þar sem leiðtogar Norður-Ameríku munu koma saman til fundar.

Þjóðvarðliðar á verði í Mexíkóborg en miklar óeirðir brutust út …
Þjóðvarðliðar á verði í Mexíkóborg en miklar óeirðir brutust út í Culiacán í kjölfar handtöku Guzmán í dag og var þeirra vænst víðar. AFP/Nicolas Asfouri

Er talið að López Obrador forseti noti það tækifæri til að sýna nágrönnunum í norðri hvers megnugur hann er og að honum sé í lófa lagið að halda uppi lögum og reglu í landi sínu.

New York Times

CNN

Reuters

Logandi vörubifreið á götu í Culiacán í kjölfar handtökunnar í …
Logandi vörubifreið á götu í Culiacán í kjölfar handtökunnar í dag. Skotbardagar brutust út víða um borgina. AFP/Marcos Vizcarra
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert