Kennarinn á batavegi eftir skotárás nemanda

Kennslukonan sem varð fyrir skotárás frá nemanda sínum er 25 …
Kennslukonan sem varð fyrir skotárás frá nemanda sínum er 25 ára gömul og heitir Abby Zwerner. Facebook/Abby Zwerner

Kennslukonan sem var skotin af sex ára nemanda sínum í grunnskóla í Virginíu í Bandaríkjunum á föstudag, er á batavegi. Hún er engu að síður enn í alvarlegu ástandi. 

BBC greinir frá, en kennslukonan heitir Abby Zwerner og er á þrítugsaldri. Batakveðjum hefur rignt yfir hana á samfélagsmiðlum. 

Öskraði til barnanna að koma sér burt

Sex ára drengur, nemandi í fyrsta bekk, skaut kennara sinn á föstudaginn, eftir að til ósættis kom milli þeirra. Lögregla hefur gefið það út að ekki hafi verið um slys að ræða heldur ásetning drengsins. 

Atvikið átti sér stað í miðri kennslustofu, að bekkjarsystkinum drengsins ásjáandi. Zwerner er sögð hafa öskrað á börnin að koma sér í burtu með hraði, eftir að hún var skotin. 

Óljóst er hvernig drengurinn komst yfir skammbyssuna, sem hann notaði til verksins. Einnig er óljóst hvernig hann kom henni óséðri inn í skólann og hvernig honum tókst að beita henni. Í grunnskólanum eru málmleitartæki notuð til þess að skima nemendur daglega, að handahófi. 

Alvarleg áminning fyrir Bandaríkin

Skólinn er kenndur við Richneck, en hann er staðsettur í borginni Newport, og í honum eru 550 nemendur á yngsta skólastigi.  Í borginni búa um 180 þúsund manns. 

Lögreglan hefur ekki viljað tjá sig um það hverjar hvatir drengsins voru. 

„Þetta er myrkur dagur í sögu okkar og þetta er alvarleg áminning fyrir landið allt,“ sagði boegarstjórinn á blaðamannafundi vegna málsins. 

Í Virginíu er ekki hægt að ákæra barn með sama hætti og fullorðna einstaklinga, en drengurinn var handtekinn á vettvangi og hefur verið í haldi lögreglu frá því á föstudag. 

Drengurinn er jafnframt of ungur til þess að hægt sé að senda hann í svokallað „æskulýðsfangelsi.“ Aftur á móti væri hægt að svipta foreldra hans forræði yfir honum og finna honum nýtt heimili með hjálp velferðarkerfisins.

mbl.is