Skólanum lokað alla vikuna

Abby Zwerner er sögð vera í stöðgu ástandi eftir árásina.
Abby Zwerner er sögð vera í stöðgu ástandi eftir árásina. Facebook/Abby Zwerner

Grunnskóla í Virginíu í Bandaríkjunum, þar sem sex ára drengur skaut kennara sinn með skammbyssu á föstudag, verður lokað alla vikuna. Í yfirlýsingu frá skólanum, Richneck Elementary School, segir að gefa eigi fjölskyldum tíma til að jafna sig. BBC greinir frá.

Kennarinn, hin 25 ára Abby Zwerner, særðist alvarlega en ástand hennar er nú stöðugt. Ekki liggur fyrir hvernig drengurinn komst yfir skammbyssuna, en í skólanum er málmleitarhlið þar sem nemendur eru skimaðir af handahófi, en ekki hver og einn.

Lögreglan hefur ekki greint nákvæmlega frá aðdraganda árásinnar en þó hefur komið fram að drengnum, sem er í fyrsta bekk, og kennaranum hafi sinnast eitthvað og hann dregið upp byssuna í kjölfarið og skotið.

Þá hefur lögreglan gefið út að ekki hafi verið um slys að ræða heldur ásetning.

mbl.is