Kókaínið flæðir í Antwerpen

Fíkniefnahundur á vaktinni. Fíkniefnin eru falin víða og ýmsum aðferðum …
Fíkniefnahundur á vaktinni. Fíkniefnin eru falin víða og ýmsum aðferðum beitt við að koma þeim til Evrópu. AFP

Lögreglan og tollgæslan hefur aldrei lagt hald á jafn mikið magn af kókaíni í belgísku hafnarborginni Antwerpen og hún gerði á síðasta ári. Þetta er liður í aðgerðum lögreglunnar í Hollandi og í Belgíu sem eiga í baráttu við alþjóðleg glæpasamtök. Antwerpen hefur verið ein helsta leið ólöglegra fíkniefni inn í Evrópu.

Opinberar tölur voru birtar í dag, eða degi eftir að 11 ára stúlka var skotin til bana í árás sem var gerð á heimili í Antwerpen. Borgarstjórinn segir að árásin sé hluti af fíkniefnastríði sem standi yfir.

Hafnarsvæðið í Antwerpen er að sögn lögreglu aðalæð ólöglegra fíkniefni sem eru flutt til Evrópu, sem fyrr segir. Í fyrra lagði lögreglan hald á 109,9 tonn af kókaíni en árið á undan nam heildarmagnið 89,5 tonnum. Ekki er vitað hversu mikið magn af efnum rataði inn á markaðinn, en reiknað er með að sú tala sé mun hærri.

Í hollensku hafnarborgunum Rotterdam og Vlissingen lagði lögreglan hald á 52,5 tonn af efninu í fyrra. Holland er í þriðja sæti á eftir Belgíu og Spáni yfir þau Evrópulönd sem glæpahópar mest til að koma fíkniefnum inn í álfuna.

Lögreglan og tollgæslan hefur haft í nægu að snúast í …
Lögreglan og tollgæslan hefur haft í nægu að snúast í baráttunni við glæpahópa og innflutning á fíkniefnum. AFP

Fleiri tollverðir og milljarðar í baráttuna

Vincent Van Peteghem, fjármálaráðherra Belgíu, sem er yfirmaður belgísku tollgæslunnar, Aukje de Vries, utanríkisráðherra Hollands, greindu frá stöðunni á sameiginelgum blaðamannafundi sem var haldinn í Antwerpen í dag.

Þeir fögnuðu árangri og samvinnu lögregluembættanna og hétu því að ráða 100 fleiri tollverði og setja að auki 70 milljónir evra, sem nemur um 10,7 milljörðum kr., í tækni- og eftirlitsbúnað sem mun nýtast í baráttunni við glæpasamtökin.

Teymi lögreglumanna í Evrópu hafa handtekið fjölda hátt settra einstaklinga eftir að hafa brotið sér leið inn í dulkóðuð samskipti sem glæpahóparnir nota. Þá hefur lögreglan lagt hald á stórar sendingar.

Fíkniefnastríð hafið

Í Antwerpen finnst sífellt meira af kókaíni og þar hafa heyrst sprengingar og skothvellir í hverfum, sem lögreglan segir að megi rekja til átaka glæpahópa í landinu.

Í gær lést 11 ára gömul stúlka eftir að vopnaðir menn skutu á heimili. „Fíkniefnastríð er hafið,“ sagði Bart de Wever, bæjarstjóri Antwerpen, í sjónvarpsviðtali.

mbl.is