Óleyst mannshvarf sett á ís

Odin André Hagen Jacobsen frá Skaun í Þrændalögum hvarf sporlaust …
Odin André Hagen Jacobsen frá Skaun í Þrændalögum hvarf sporlaust í Þrándheimi aðfaranótt 18. nóvember 2018, þá 18 ára gamall. Í dag úrskurðaði héraðssaksóknari að rannsókn málsins skyldi hætt á þeirri forsendu að Odin sé einfaldlega látin. Rannsóknin er þó ekki hafin yfir gagnrýni. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Við erum auðvitað vonsvikin,“ segir Dan Yngve Jacobsen, faðir Odins André Hagen Jacobsens sem hvarf sporlaust í kaupstaðarferð til Þrándheims 18. nóvember 2018, þá 18 ára gamall, en fjölskyldan er frá Skaun í Þrændalögum. Vonbrigði föðurins stafa af því að í dag tók héraðssaksóknaraembættið í Þrændalögum ákvörðun um að rannsókn málsins skyldi hætt á þeirri forsendu að engin saknæm háttsemi hefði átt sér stað í tengslum við hvarfið.

„Lögreglan gengur út frá því að Odin sé látinn,“ segir í fréttatilkynningu frá saksóknaraembættinu, „eftir athugun saksóknara á umfangsmiklum rannsóknargögnum málsins er það eina röklega skýringin á því að hann hafi ekki komið fram. Saksóknari leggur það því til grundvallar að Odin sé ekki lengur á lífi.“

Telur embættið þá skýringu líklegasta að Odin hafi lent í sjónum aðfaranótt 18. nóvember 2018, við bryggju númer tvö á Brattøra þar sem síðast sást til hans.

Odin væri líklega að læra tónlist eða náttúruvísindi væri hann …
Odin væri líklega að læra tónlist eða náttúruvísindi væri hann hér í dag segir æskuvinur hans frá. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Vonir okkar stóðu til þess að saksóknari legði meira traust á þær upplýsingar sem við höfum lagt fram við rannsóknina og beitti sér fyrir því að vissir hlutir yrðu teknir til nánari skoðunar. Eins og staðan er nú vitum við ekkert hvað varð um Odin,“ segir faðirinn enn fremur við norska ríkisútvarpið NRK.

En hvaða upplýsingar hafa þá komið fram?

Mál Odins er eitt um það bil 20 óleystra mannshvarfsmála í Noregi árabilið 1970 til 2018. Óleyst manndrápsmál í landinu eru 32 til samanburðar. Í flestum mannshvarfsmálanna liggja fyrir kenningar um hvað kunni að hafa gerst, mistrúlegar. Í örfáum þessara mála er nánast engu slíku til að dreifa. Tvö þeirra eru frá 2018, mál Odins, sem hér er til umfjöllunar, og mál Anne-Elisabeth Hagen sem hvarf frá heimili sínu í Lørenskog tæpum þremur vikum á undan, 31. október.

Odin fór með vinum sínum út að skemmta sér í Þrándheimi. Urðu þeir viðskila, vinirnir enduðu á hóteli þar sem þeir létu fyrir berast um nóttina. Odin kom aldrei þangað. Síðdegis daginn eftir tilkynna foreldrar hans hvarfið til lögreglu, hann hafi hvorki komið heim né látið nokkuð í sér heyra. Umfangsmikil leit er hafin en skilar engum árangri.

Síðasta hálmstráið. Upptaka úr öryggismyndavél við hafnarhverfið Brattøra í Þrándheimi. …
Síðasta hálmstráið. Upptaka úr öryggismyndavél við hafnarhverfið Brattøra í Þrándheimi. Hún er það síðasta sem sást til Odins André Hagen Jacobsens þessa nóvembernótt árið 2018. Ljósmynd/Lögreglan í Þrándheimi

Það er ekki fyrr en 1. desember sem greiðslukort Odins finnst ásamt vegabréfi hans og síma, á áðurnefndri bryggju númer tvö úti á Brattøra. Ekkert erfðaefni, hvorki eigandans né annarra, finnst á þessum hlutum. Lögreglan opnar lásinn á símanum en þar leynast engar upplýsingar sem gagnast rannsókninni.

Með margra mánaða vinnu púslar lögreglan saman upptökum úr öryggismyndavélum í Þrándheimi sem náðu Odin í mynd. Klukkan 06:01 um morguninn sést hann ganga út á bryggjuna á Brattøra. Nokkru síðar sést hvít bifreið aka þar um. Rannsóknin endar í blindgötu.

Brunarústirnar við Jonsvatnet

Hálft ár líður. Þá finnur göngugarpur við Jonsvatnet, 15 kílómetra frá þeim stað þar sem síðast sást til Odins, hálfbrunna hluti á gömlu eldstæði þar við vatnið. Í ljós kemur að þar eru á ferð hlutir sem tilheyrðu Odin. Lögregla hefur ekki viljað gefa upp um hvaða hluti var að ræða.

Um 130 vitni eru kölluð til skýrslugjafar hjá lögreglu yfir sumarið, 2019, án þess að ástæða þyki til að veita nokkru þeirra stöðu grunaðs í málinu.

Sumarið 2020 fjallar Jens Christian Nørve um mál Odins í þætti sínum Åsted Norge á TV2, Glæpavettvangurinn Noregur eins og það myndi þýðast. Þátturinn fjallar um óleyst sakamál í landinu og hefur oftar en ekki vakið umtalsverða athygli áhorfenda.

Í kjölfarið berst ábending um ökumann hvítu bifreiðarinnar sem sást á síðustu upptökunni. Ökumaðurinn er handtekinn í ágúst og reynist þá vera þar komið eitt vitnanna 130 sem lögreglan ræddi við í kjölfar fundarins við Jonsvatnet. Ökumaðurinn játar við yfirheyrslu að hafa ekið með muni úr fórum Odins upp að Jonsvatnet og kveikt þar í þeim. Þann gjörning sinn gat hann þó ekki með nokkru móti útskýrt og neitaði með öllu að hafa haft nokkuð með hvarf Odins að gera. Eftir að hafa haft stöðu grunaðs um hríð afskrifar lögregla að ökumaður hvítu bifreiðarinnar hafi haft nokkuð með málið að gera.

Einblínt á að hann hefði farið í sjóinn

Í nóvember 2021, þremur árum eftir hvarfið, stendur lögreglan uppi með fjórar kenningar: sjálfsvíg, slys, að Odin hafi látið sig hverfa af fúsum og frjálsum vilja og loks að hann hafi orðið fórnarlamb einhvers og þar með um sakamál að ræða.

Skyggnist tunglið yfir hlíð. Hafnarhverfið Brattøra þar sem síðast sást …
Skyggnist tunglið yfir hlíð. Hafnarhverfið Brattøra þar sem síðast sást til Odins. Á bryggju númer tvö fundust munir í eigu hans, greiðslukort, vegabréf og sími. Mánuðum síðar fundust fleiri munir tengdir honum brenndir á báli við Jonsvatnet. Ljósmynd/Wikipedia.org/Kolbkorr

Ingunn Hagen, móðir Odins, ræddi við Under Dusken í janúar í fyrra, fréttablað háskólanemenda í Þrándheimi, sem reyndar er það elsta sinnar tegundar í Skandinavíu, stofnað 1914. Móðirin er prófessor í sálfræði við Tækniháskólann í Þrándheimi, NTNU. Hún kvaðst þakklát fyrir allt sem gert hefði verið til að hafa uppi á týnda syninum, hvort tveggja af hálfu lögreglu og sjálfboðaliða, en taldi þó ýmislegt að athuga við lögreglurannsóknina.

„Meðal annars sá vitni í Mostadmarka í Malvik einhvern sem líktist Odin daginn eftir hvarf hans. Þessu var ekki fylgt eftir fyrr en einu og hálfu ári síðar, eftir að Åsted Norge fjallaði um málið. Núna er svo langt um liðið að þessi slóð er löngu kólnuð,“ sagði prófessorinn.

Hún sagði lögreglu hafa einblínt á þá skýringu að Odin hefði lent í sjónum. Kafarar fundu þó ekkert við leit, hvorki í sjónum né í Niðará sem rennur gegnum Þrándheim. Auk leitar þeirra var fjarstýrðum kafbátum beitt.

Þá hefði upptakan úr myndavélinni, sem geymdi síðasta myndskeiðið af Odin, ekki verið skoðuð fyrr en tveimur mánuðum eftir hvarfið og þá búið að taka yfir hluta efnisins með nýrra myndefni svo aðeins brotið sem sýndi för hans út á eyrina var eftir. Hugsanlega hefði efni glatast þar sem geymt hefði frekari vísbendingar.

Ekkert óvenjulegt í framkomu hans

„Ég vinn við rannsóknir og þekki til þess að rannsaka hluti með augum rannsakanda. Hvorki faðir Odins né ég höfum haft mikil samskipti við lögregluna um dagana svo við erum engir sérfræðingar í lögreglustörfum. En við erum bæði þeirrar skoðunar að rannsóknin hefði komist lengra með dýpri nálgun í stað þess að prófa bara fyrirframgefnar kenningar,“ sagði Hagen í janúar fyrir ári.

Ingunn Hagen, móðir Odins, kvað lögreglu hafa einblínt á þá …
Ingunn Hagen, móðir Odins, kvað lögreglu hafa einblínt á þá skýringu að hann hefði lent í sjónum. Hvorki fannst tangur né tetur af honum þar við ítarlega leit. Ljósmynd/Úr einkasafni

Under Dusken ræddi einnig við Ask Rugelsjøen, einn æskuvina Odins sem nú starfar sem slökkviliðsmaður í Skaun þar sem þeir vinirnir slitu barnsskónum. Sagði hann aðstandendur sitja uppi með fjölda spurninga sem aldrei fáist svör við. „Nú er svo langt um liðið án þess að nokkrar nýjar vísbendingar hafi komið fram að það verður erfitt að fá einhverja mynd af því sem gerðist,“ sagði vinurinn.

Odin hefði verið lífsglaður drengur og ekkert óvenjulegt við framkomu hans dagana fyrir hvarfið. Þeir hefðu haft á prjónunum að hittast helgina sem hann hvarf. „Væri hann hér í dag væri hann líklegast að læra tónlist eða náttúrufræði. Hann var mjög upptekinn af náttúrunni, lék á píanó og söng í kór.“

Audun Hoem Musinoi Hagen, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Þrændalögum, sagði blaðamönnum Under Dusken í fyrra að hann yrði að vísa til fyrri yfirlýsinga lögreglunnar, eftir þriggja ára rannsókn legði hún að sjálfsögðu eyrun við gagnrýni, einkum hvað varðaði efnið úr síðustu öryggismyndavélinni.

Aldrei öruggur í miðbænum um miðja nótt

„Ég hugsa að við hefðum ekki átt að hlusta á utanaðkomandi sérfræðing sem sagði okkur að litlar líkur væru á að þessi myndavél skilaði nokkru gagnlegu. Hefðum við vitað að það hefði verið hægt hefðum við lagt í þann kostnað og tryggt okkur efnið fyrr,“ sagði Hans Vang, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar, í viðtali við fréttavefinn Nidaros fyrir rúmu ári. Þá hefði rannsóknarlögreglan Kripos ekki komið að málinu með staðarlögreglunni fyrr en brunnu hlutirnir fundust við Jonsvatnet, nokkuð sem einnig hefði mátt vera öðruvísi.

„Nú er svo langt um liðið án þess að nokkrar …
„Nú er svo langt um liðið án þess að nokkrar nýjar vísbendingar hafi komið fram að það verður erfitt að fá einhverja mynd af því sem gerðist,“ sagði Ask Rugelsjøen, einn æskuvina Odins, í viðtali við stúdentablaðið Under Dusken í fyrra. Ljósmynd/Úr einkasafni

Foreldrar Odins íhuguðu að ráða einkarannsakanda að málinu, sagði móðirin frá í viðtalinu í fyrra. Hefðu vinir Odins hleypt af stokkunum fjársöfnun á lýðnetinu til að standa straum af þessu.

Hver veit nema af því verði nú þegar héraðssaksóknari hefur úrskurðað að rannsókninni skuli hætt?

Ingunn Hagen sagði í viðtalinu í fyrra að þau hjónin fengju aldrei að vita hvað beðið hefði sonar þeirra á Brattøra í Þrándheimi aðfaranótt 18. nóvember 2018. Hvort eitthvað saknæmt hefði átt sér stað, einhverjir hefðu verið þar til staðar sem aldrei hefðu gefið sig fram. Móðirin á lokaorðin um hið óupplýsta hvarf Odins André Hagen Jacobsens:

„Ég hugsa að margir námsmenn telji sig örugga vegna þess að þeir eru sjálfir ekki viðriðnir glæpastarfsemi, en þú getur bara aldrei verið alveg öruggur í miðbænum um miðja nótt.“

NRK

NRKII (lögregla óskar niðurfellingar)

NRKIII (fá aldrei að vita um örlög hans)

NRKIV (málið tekur óvænta stefnu)

Under Dusken (viðtal í janúar 2022)

VG

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert