Fyrirtæki Trumps sektað um 229 milljónir

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP/Chandan Khanna

Dómari í New York sektaði fjölskyldufyrirtæki Donalds Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, um 1,6 milljónir Bandaríkjadala, eða tæpar 229 milljónir íslenskra króna, fyrir skattsvik í dag. Fyrirtækin sviku pening undan skatti í mörg ár með því að falsa viðskiptaskrár.

Í síðasta mánuði voru Trump Corporation og Trump Payroll Corp., sem tilheyra Trump Organization, sak­felld fyr­ir skattalagabrot af hæstarétti New York-ríkis, en þau ráku svik­a­starf­semi í þrett­án ár.

Fjármálastjórinn fyrrverandi játaði

Allen Weisselberg, fyrrverandi fjármálastjóri Trump Organization, var dæmdur í fimm mánaða fangelsi á þriðjudaginn og féllst á að greiða tvær milljónir dollara, eða tæplega 286 milljónir íslenskra króna, í sekt fyrir þátt sinn í svindlinu. Weisselberg játaði fimmtán skattalagabrot fyrir dómi og bar einnig vitni gegn fyrirtækinu í málinu.

Þrátt fyrir að fyrrverandi forsetinn sjálfur var ekki sakfelldur í málinu, heldur fyrirtæki hans, má ætla að niðurstaða dómsins kunni að koma á hann höggi, þar sem hann hefur gefið út að hann ætli aftur að gefa kost á sér til forseta Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert