Bretar útvega Úkraínumönnum skriðdreka

Úkraínskir hermenn standa við skriðdreka í héraðinu Lúgansk.
Úkraínskir hermenn standa við skriðdreka í héraðinu Lúgansk. AFP/Anatolí Stepanov

Bretar hafa ákveðið að útvega Úkraínumönnum skriðdreka til að nota í bardögum við Rússa. Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, greindi frá þessu.

Sunak hét því að láta Úkraínu hafa skriðdreka af tegundinni Challenger 2, ásamt öðrum vopnum til merkis um „metnað [Bretlands] til að auka stuðning okkar við Úkraínu“, sagði Sunak er hann ræddi við Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, í síma.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti. AFP

Bretar eru þar með fyrsta vestræna ríkið til að útvega Úkraínumönnum svona öfluga skriðdreka. Frakkar höfðu áður lýst því yfir að þeir ætluðu að láta Úkraínu fá léttari tegund skriðdreka af tegundinni AMX 10 RC.

Selenskí fagnaði ákvörðun Breta og sagði hana „senda út rétt skilaboð“, auk þess sem hersveitir hans muni eflast. Stjórnvöld í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, hafa undanfarið sett þrýsting á Vesturlönd um að útvega þeim fleiri vopn.

mbl.is