Hafa áhyggjur af heilsu Navalnís

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní hefur setið í fangelsi í tvö …
Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní hefur setið í fangelsi í tvö ár. AFP/Alexander Nemenov

Áhyggjur af heilsu rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnís hafa aukist. Fyrr í vikunni skrifuðu um 500 rússneskir læknar undir opið bréf til Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta þar sem þess er krafist að fangelsisyfirvöld hætti að kvelja Navalní og veiti honum þess í stað viðunandi læknismeðferð.

Bandarísk og þýsk yfirvöld hafa bæst í hóp þeirra sem krefjast þess að Navalní fái þá læknisaðstoð sem hann þurfi.

Lögfræðingur Navalní, Vadim Kobsev, sagði hann hafa þjáðst af kuldahrolli, hita og miklum hósta í einangrunarklefa.

Sagði Kobsev að bréfið virtist hafa haft áhrif þar sem Navalní fékk sýklalyf á fimmtudag og ástand hans virtist hætt að versna. Í gær sagði hann að Navalní hefði komist undir læknishendur, en hefði þó ekki enn fengið lyfin sem hann þurfti.

Færður í einangrun í tíunda sinn

John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, sagði að þjóðin deildi áhyggjum rússnesku læknanna. Þá hvöttu þýsk stjórnvöld til þess að Navalní yrði látinn laus og sögðu að fangelsun hans væri byggð á „pólitískum dómi“.

Navalní hefur sakað fangelsisyfirvöld um að láta samfanga hans smita hann af flensu. Sagðist hann einnig hafa verið vistaður í einangrunarklefa þann 31. desember, í tíunda sinn frá því að hann var fangelsaður.

Navalní hefur setið í fangelsi í tvö ár. Hann hefur verið einn helsti gagnrýnandi Pútíns, en hann var fangelsaður í febrúarmánuði árið 2021 fyrir gamlar kærur vegna fjársvika. Í mars á síðasta ári var Navalní dæmdur í níu ára fangelsi.

mbl.is