Senda aukinn herbúnað til Úkraínu

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. AFP/John Thys

Vesturlönd hafa í hyggju að senda aukinn herbúnað til Úkraínu von bráðar. Þetta sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins við þýska dagblaðið Handelsblatt í dag.

„Á ögurstundu“

„Vaxandi þörf Úkraínumanna á herbúnaði skiptir okkur máli. Ég býst við því að við veitum frekari aðstoð á næstunni,“ sagði Stoltenberg. Úkraínsk stjórnvöld hafa kallað eftir auknum búnaði, þar á meðal skriðdrekum, frá Vesturlöndum sem hafa hikað við að beita sér í átökunum.

„Við erum á ögurstundu hvað stríðið varðar. Þess vegna er mikilvægt að við útvegum Úkraínumönnum þann búnað sem þeir þurfa.“

Frakkland, Þýskaland og Bandaríkin lofuðu fyrr í mánuðinum að útvega Úkraínu á annað hundrað skriðdreka.

mbl.is