Vill vitna gegn „kokki Pútíns“

Andrei Medvedev var yfirmaður í hinum alræmdu Wagner-málaliðasveitum sem kaupsýslumaðurinn …
Andrei Medvedev var yfirmaður í hinum alræmdu Wagner-málaliðasveitum sem kaupsýslumaðurinn Jevgení Prígosjín, „kokkur Pútíns“ stendur á bak við og fjármagnar. Ljósmynd/Русь сидящая

Fyrrverandi liðsmanni og yfirmanni í rússnesku málaliðasveitinni Wagner tókst að flýja frá Rússlandi yfir landamærin til Noregs aðfaranótt föstudags í kúlnahríð frá landamæravörðum á vegum rússnesku leyniþjónustunnar FSB.

Flóttamaðurinn, Andrei Medvedev, hljóp yfir ísi lagða Pasvik-ána sem rennur eftir landamærunum eftir að hafa komist gegnum gaddavírsgirðingu skammt frá rússneska bænum Nikel og komst til Skrøytnes í Noregi þaðan sem hann var fluttur til Óslóar í skyndi öryggis hans vegna.

„Ég leit um öxl og sá þá menn með vasaljós hlaupa á eftir mér, þeir voru um 150 metra frá mér,“ segir Medvedev í samtali við rússnesku vefsíðuna Gulagu.net sem berst gegn spillingu, pyntingum og mannréttindabrotum í Rússlandi.

Á þunnum ís

Kveður Medvedev hafa heyrt hvininn af byssukúlum umhverfis sig. Hann hafi þá brotið símann sinn og hent honum inn í skóginn. Skömmu síðar hafi hann komið auga á ljósin Noregsmegin landamæranna og hlaupið út á ísinn sem þakti Pasvik-ána.

„Þeir slepptu hundinum en hann festi sig þá í einhverri víraflækju. Líklega voru þeir smeykir við að hlaupa á eftir mér, ísinn var þunnur og ég fann hann gefa eftir undir fótum mínum,“ segir Medvedev frá.

Hann knúði dyra á fyrsta húsi sem hann kom að í Skrøytnes og gerði grein fyrir sér. Húsráðendur höfðu þá samband við lögreglu sem kom ásamt landamæravörðum og flutti Medvedev til Kirkenes þaðan sem flogið var með hann til Óslóar.

Frá pylsuvagni til málaliðasveita

Eftir því sem Gulagu.net kemst næst er þetta í fyrsta sinn sem fyrrverandi liðsmaður Wagner-sveitarinnar flýr frá Rússlandi en Medvedev kveðst vilja bera vitni gegn rússneska kaupsýslumanninum Jevgení Prígosjín sem Morgunblaðið fjallaði ítarlega um í fréttaskýringu í lok október í fyrra.

Prígosjín er náinn vinur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og jafnan nefndur „kokkur Pútíns“ sem sprottið er af því að eftir að hann losnaði úr fangelsi í kjölfar 13 ára dóms fyrir rán, líkamsárás og fjársvik tók hann að reka pylsuvagn í Pétursborg en fljótlega bættist matvöruverslun við reksturinn og að lokum fínir veitingastaðir. Hélt Pútín jafnan upp á afmæli sitt á veitingastöðum Prígosjíns sem varð kveikjan að kokksviðurnefninu.

Prígosjín stendur á bak við og fjármagnar Wagner-sveitirnar sem berjast meðal annars í Úkraínu. Flóttamaðurinn Medvedev yfirgaf Wagner þegar fjögurra mánaða starfssamningur hans við málaliðana rann sitt skeið á enda.

Wagner komst í heimsfréttirnar í nóvember í kjölfar þess er myndskeið birtist á samfélagsmiðlinum Telegram er sýndi fyrrverandi rússneskan fanga myrtan með sleggju eftir að sá hafði flúið yfir til Úkraínu í stað þess að berjast með Wagner-sveitunum. Vitað er að Prígosjín hefur fyrirskipað að þeir Wagner-liðsmenn sem neita að berjast við Úkraínumenn skuli skotnir.

Talið er að Medvedev gæti orðið lykilvitni í sakamáli gegn „kokki Pútíns“ sæti hann einhvern tímann ákæru fyrir stríðsglæpi.

The Barents Observer

Dagbladet

Aftenposten

Gulagu.net

mbl.is