Enn stokka Rússar spil sín í Úkraínu

Vladimír Pútín Rússlandsforseti í símtali á skrifstofu sinni fyrr í …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti í símtali á skrifstofu sinni fyrr í mánuðinum. AFP

Varnarmálaráðherra Rússlands hefur skipað Valerí Gerasímov, yfirmann herráðs Rússlands, í stöðu æðsta yfirmanns allra herja Rússlands í Úkraínu. Tekur hann við af Sergei Súróvíkin hershöfðingja sem fyrir aðeins þremur mánuðum var falið þetta sama hlutverk.

Súróvíkin hverfur þó ekki alveg af sjónarsviðinu, er honum ætlað að aðstoða Gerasímov í sínum störfum.

En hver er þessi Gerasímov hershöfðingi sem nú stjórnar hernaðaraðgerðum innrásarliðs Rússa í Úkraínu?

Valerí Gerasímov fæddist hinn 8. september 1955 í borginni Kazan, fimmtu stærstu borg Rússlands. Hann er kvæntur og á einn son.

Gerasímov lauk námi við Kazan-bryndrekaskólann árið 1977, en skólinn, sem stofnaður var 1941, útskrifar framtíðarleiðtoga í bryndrekasveitum Rússlands. Á ferli sínum sem atvinnuhermaður hefur Gerasímov m.a. stjórnað flokksdeild, undirfylki og herfylki í norðurher Sovétríkjanna og á austustu hersvæðum.

Árið 1987 útskrifaðist hann frá framhaldsherskólanum Malinovskí í Moskvu og árið 1997 frá herskóla herráðs Rússlands sem einungis hleypir reyndum yfirmönnum inn fyrir sínar dyr. Í seinna Téténíustríði fór Gerasímov fyrir 58. her í Norður-Kákasushéraði. Þá hefur hann m.a. verið yfirmaður hersvæða Leníngrad og Moskvu, aðstoðaryfirmaður herráðs Rússlands og leitt hátíðahöldin á Rauða torginu á Sigurdeginum svonefnda í fjórgang.

Rússlandsforseti skipaði Valerí Gerasímov svo yfirmann herráðsins árið 2012 og hefur hann frá þeim tíma verið leiðandi afl í umbótum hersins. Hefur varnarmálaráðherrann lýst Gerasímov sem „atvinnuhermanni fram í fingurgóma“.

Sýnir alvarleika átaka

Eru Rússar að sýna veikleika með því að skipta út Súróvíkin?

Dmitrí Trenín, fyrrverandi yfirmaður Carnegie-hugveitunnar í Moskvu og ofursti í leyniþjónustu rússneska hersins, lítur ekki á þetta nýjasta útspil Moskvuvaldsins sem veikleikamerki. Það að yfirmaður herráðs Rússlands sé nú einnig yfirmaður innrásarliðsins í Úkraínu sé mun frekar merki um stigmögnun átaka og til marks um hve mikilvæg yfirstandandi hernaðaraðgerð er.

„Yfirmaður herráðsins er æðsti yfirmaður alls herafla Rússlands, þar á meðal þeirra sem ekki eru í Úkraínu. Rússnesk hernaðaruppbygging hefur átt sér stað undanfarið í Hvíta-Rússlandi og er Gerasímov hershöfðingi, ólíkt Súróvíkin hershöfðingja, yfirmaður hermanna þar […] Hægt væri nú að tengja allar hersveitir Rússlands, hvar sem þær eru staddar í heiminum, við átökin í Úkraínu,“ sagði Trenín í samtali við Al Jazeera.

Mikla athygli vakti þegar Sergei Súróvíkin, sem þekktur er fyrir grimmd á vígvellinum, var skipaður yfirmaður allra herja Rússlands í Úkraínu. Nú þremur mánuðum síðar er hann settur til hliðar. Trenín segir þetta ekki merki um að hann sé fullreyndur. Skiptingin sé fremur til marks um alvarleika átaka.

„Súróvíkin er flughershöfðingi. Hann er æðsti yfirmaður flugherja Rússlands og ég tel að hann muni áfram sinna sínum störfum. En umfang aðgerðanna [í Úkraínu] er að aukast, rétt eins og stigmögnun stríðsins.

Í upphafi hófu Vesturlönd að útvega Úkraínu Javelin-bryndrekabana, núna er umræðan sú að senda þeim bryndreka – orrustuskriðdreka frá ríkjum NATO. Síðar kunna loftvarnakerfi, svokölluð Patriot, að koma. Þeim hefur verið lofað. Einhvern tíma koma svo flugvélar. Stríðið er því að vaxa að umfangi, er orðið hættulegra. Og nú er það komið í hendurnar á æðsta yfirmanni alls herafla Rússlands.“

Umfjöllunin birtist fyrst í Morgunblaðinu laugardaginn 14. janúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert