Fólksfjöldi dróst saman í fyrsta sinn í 60 ár

Fólksfjöldi í Kína dróst saman í fyrsta sinn í rúma sex áratugi á síðasta ári, samkvæmt opinberum tölum.

1,4 milljarðar manna búa í Kína. Fæðingartíðni hefur dregist mikið saman á sama tíma og vinnuaflið í landinu eldist. Sérfræðingar vara við því að þróunin eigi eftir að hamla hagvexti í landinu.

Fólksfjöldinn á meginlandi Kína var um 1.411.750.000 undir lok síðasta árs. Það er samdráttur um 850 þúsund manns frá sama tíma árið áður.

Fólk gengur út af lestarstöð í Peking, höfuðborg Kína, í …
Fólk gengur út af lestarstöð í Peking, höfuðborg Kína, í morgun. AFP/Wang Zhao

Fjöldi fæðinga nam 9,56 milljónum á meðan fjöldi dauðsfalla nam 10,41 milljón.

Síðast dróst fólksfjöldi í Kína saman snemma á sjöunda áratugnum þegar mikil hungursneyð var í landinu vegna skaðlegrar landbúnaðarstefnu leiðtogans Mao Zedong.

Fólk á gangi í Peking í morgun.
Fólk á gangi í Peking í morgun. AFP/Wang Zhao

Kínverjar afléttu strangri reglu sinni um að pör mættu aðeins eignast eitt barn árið 2016 en hún var innleidd á áttunda áratugnum af ótta við offjölgun. Árið 2021 var reglan rýmkuð enn frekar og pörum leyft að eignast þrjú börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert