Finnar senda 62 milljarða króna aðstoð

Archer-vopna­búnaður sem Svíar munu senda Úkraínumönnum.
Archer-vopna­búnaður sem Svíar munu senda Úkraínumönnum. AFP

Finnsk yfirvöld tilkynntu í dag 400 milljóna evra hernaðaraðstoð til Úkraínu. Um er að ræða tæplega 62 milljarða íslenskra króna og því er þetta umfangsmesta hernaðaraðstoð Finna hingað til. 

Finnar munu senda stórskotalið og skotfæri. Í gær tilkynntu yfirvöld í Svíþjóð og Danmörku einnig umfangsmikla aðstoð til Úkraínu. 

„Úkraínu mun áfram þurfa aðstoð við að vernda landsvæði sitt,“ sagði í yfirlýsingu varnarmálaráðherrans Mikko Savola.

Leopard-skriðdrekar ekki með í aðstoðinni

Um er að ræða tólftu hernaðaraðstoð Finna til Úkraínu en fyrri ellefu pakkar voru samtals að virði 190 milljóna evra.

Þá sagði í yfirlýsingunni að Finnar myndu undirrita viljayfirlýsingu ásamt Svíum um áframhaldandi stuðning við Úkraínu og að hernaðaraðstoð ríkjanna myndi ekki stofna ríkjunum í hættu.

„Finnland útvegar Úkraínu búnað og Svíar lýsa sig reiðubúna til að styðja Finnland eftir þörfum,“ sagði í yfirlýsingunni. 

Aukinn þrýstingur er á að Þjóðverjar og evrópskir bandamenn þeirra sendi Úkraínumönnum Leopard-skriðdreka, sem nokkrir herir í heiminum notast við. Þar á meðal her Finna, en skriðdrekarnir verða þó ekki sendir með hernaðaraðstoðinni sem var tilkynnt í dag.

„Við vonum að þessi ákvörðun [að senda Leopard-skriðdreka] verði að raunveruleika, og Finnland er meira en tilbúið til þess að taka þátt í þeim stuðningi,“ sagði Pekka Haavisto utanríkisráðherra á þriðjudag.

Pólskur Leopard-skriðdreki.
Pólskur Leopard-skriðdreki. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert