Hipkins næsti forsætisráðherra Nýja-Sjálands

Chris Hipkins.
Chris Hipkins. AFP/Neil Mackenzie

Chris Hipkins verður að öllum líkindum næsti forsætisráðherra Nýja-Sjálands og mun taka við embættinu af Jacinda Ardern sem tilkynnti á dögunum að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri í komandi leiðtogakjöri Verkamannaflokksins. Hún lætur af embætti eigi síðar en 7. febrúar.

Hipkins var áður farsóttaráðherra Nýja-Sjálands en sá ráðherrastóll var settur á í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Nú er Hipkins lögreglu- og skólamálaráðherra.

Þingflokkur Verkamannaflokksins kemur saman á sunnudag til að staðfesta Hipkins sem næsta formann flokksins. 

Fylgi flokksins dalað

Verkamannaflokkurinn þarf formlega að standa við bakið á Hipkins á sunnudag til þess að hann taki við sem 41 forsætisráðherra landsins.

Fyrsta verkefni Hipkins verður að hífa fylgi flokksins upp en fylgi hans hefur dalað vegna hækkandi verðlags, fátæktar og aukinnar glæpatíð.

Það kom mörgum á óvart að Ardern myndi ekki sækjast eftir endurkjöri en aðeins þrjú ár eru frá því að flokkurinn vann stórsigur í kosningum með hana sem formann. Ardern sagði tankinn tóman þegar hún var spurð út í afsögnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert