„Saklaus dýr þjást því okkur finnst þau krúttleg“

Margir vilja fá sér pug, enda skemmtilegir og krúttlegir hundar. …
Margir vilja fá sér pug, enda skemmtilegir og krúttlegir hundar. En þeim er hætt við að eiga erfitt með öndun. AFP

Yfirvöld í Hollandi hyggjast banna eignarhald á gæludýrum sem eru krúttlegt en þjást sökum þess. Tekið er dæmi um hunda með flatt andlit á borð við pug-hunda, sem eru afar vinsælir, og ketti með lafandi eyru.

Piet Adema, landbúnaðarráðherra Hollands, segist ætla að leggja fyrir þingið frumvarp sem myndi gera það ólöglegt að eiga slík dýr, nota þau í auglýsingum eða birta myndir af á samfélagsmiðlum.

„Við látum saklaus dýr þjást allt sitt líf, bara af því okkur finnst þau krúttleg,“ segir Adema.

Ræktun bönnuð árið 2014

Holland bannaði ræktun á gæludýrum sem þjást vegna útlits síns árið 2014, en sum gæludýr eru seld ólöglega eða smyglað yfir landamærin.

Frumvarpið sem Adema hyggst leggja fram lokar glufu í löggjöfinni frá 2014 og gerir það ólöglegt að eiga gæludýrin.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að hundategundir á borð við pug, franskan og enskan bolabít eru líklegri til þess að þjást af heilsufarsvandmálum, þá sérstaklega öndunarerfiðleikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert