Látnir vinna sjö daga í viku

​Margaret Thatcher forsætisráðherra heilsar upp á breska hermenn á Falklandseyjum …
​Margaret Thatcher forsætisráðherra heilsar upp á breska hermenn á Falklandseyjum í janúar 1983. AFP/Sven Nackstrand

Þegar ég rakst á fyrirsögnina hér að ofan, Látnir vinna sjö daga í viku, í gömlum Mogga frá 22. janúar 1983 hugsaði ég fyrst með mér: Hér er búið að leysa mönnunarvanda á vinnumarkaði í eitt skipti fyrir öll! Auðvitað á að nýta krafta hinna látnu til að mæta aðsteðjandi þörf og halda uppi hagvexti. Ég meina, hafa þeir eitthvað betra að gera?

Það voru því talsverð vonbrigði að lesa fréttina, sem fjallaði alls ekki um framliðna, heldur breska hermenn á Falklandseyjum. Þeir ágætu piltar sögðu raunar farir sínar ekki sléttar. „Brezkir (þarna voru menn enn að vinna með zetuna á síðum blaðsins) hermenn á Falklandseyjum halda því fram að þeir séu látnir vinna sjö daga í viku, heilsugæzlu þeirra sé áfátt, þeir þjáist af matareitrun og þeir fái ekki nógan bjór,“ stóð í frétt blaðsins.

Hafði Jerry Wiggin, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bretlands, verið falið að athuga málið, en hann var einmitt staddur á Falklandseyjum.

Látum það vera með skort á heilsugæslu og eina og eina matareitrun en að fá ekki nógan bjór! Það er vitaskuld ekki nokkrum manni bjóðandi og allra síst í stríði.

Nafnlaus heimildarmaður

Heimildarmaður var nafnlaus hermaður sem kvartað hafði bréflega við götublaðið The Sun.

„Hermaðurinn, sem bréfið ritar, heldur því fram, að „villt sé um fyrir almenningi varðandi staðreyndir um lífið á Falklandseyjum“. Kvartar hann m.a. yfir því, að á einum stað sé aðeins til eitt bað og ein sturta handa 56 manns, að eggin, sem þeir borða, séu sjö mánaða gömul. Þá hafi bréf um aðbúnað hermanna á Falklandseyjum, sem sent hafi verið frú Margaret Thatcher forsætisráðherra, er hún heimsótti eyjarnar, verið stöðvað í Port Stanley og höfundur þess fengið ofanígjöf,“ stóð í frétt Morgunblaðsins.

Af hálfu breska varnarmálaráðuneytisins hafði því verið lýst yfir, að sá lélegi aðbúnaður, sem kvartað var yfir í bréfinu, gæti alls ekki talist algengur á Falklandseyjum og harmaði það, að The Sun skyldi ekki hafa haft samband við ráðuneytið til þess að staðreyna það, hvort kvartanir bréfritarans ættu við rök að styðjast. Þá var því alfarið neitað af hálfu varnarmálaráðuneytisins að bréf hermanna á Falklandseyjum væru ritskoðuð.

Nánar er fjallað um hvað var í erlendum fréttum í Morgunblaðinu fyrir fjörutíu árum í Sunnudagsblaðinu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »