Telja Holmes hafa gert tilraun til að flýja land

Frá réttarhöldunum yfir Holmes. Hún var sakfelld og dæmd í …
Frá réttarhöldunum yfir Holmes. Hún var sakfelld og dæmd í 11 ára fangelsi. AFP/Nick Otto

Elizabeth Holmes, stofnandi Theranos, er sögð hafa gert tilraun til að flýja Bandaríkin skömmu eftir að hún var sakfelld fyrir að blekkja fjárfesta, í janúar á síðasta ári. 

Í nóvember árið 2022 var Holmes dæmd í 11 ára fangelsi. Hún hefur áfrýjað dómnum og byrjar ekki að afplána hann fyrr en í vor. 

Holmes, sem er barnshafandi, dvelur nú í stórhýsi í Woodside Kaliforníu, en áætlaður rekstrarkostnaður heimilisins eru 13 þúsund dalir á mánuði, eða því sem nemur 1,8 milljónum íslenskra króna. CNN greinir frá.

Saksóknarinn telur tímann frá sakfellingu til afplánunar vera heldur „rausnarlegan“ og hefur farið fram á að hún fari fyrr í fangelsi.

Bókaði ekki báðar leiðir

Í gögnum sem voru nýlega lögð fram fyrir dómi er m.a. vísað til þess að Holmes hafi keypt flugmiða til Mexíkó skömmu eftir að niðurstaða í hennar máli lá fyrir í janúar en einungis var keyptur miði fyrir aðra leiðina.

„Stjórnvöld urðu þess vör þann 23 janúar, 2022, að sakborningurinn Holmes bókaði alþjóðlegt flug til Mexíkó sem átti að fara af stað 26. janúar, 2022, án þess að hafa skipulagt heimkomu.“

Þá kemur einnig fram að ferðinni hafi ekki verið aflýst fyrr en að stjórnvöld gerðu athugasemd við hana.

mbl.is