Móðir og tvö börn hennar fundust látin

Konan og börn hennar fundust látin í húsi í Vejrumbro, …
Konan og börn hennar fundust látin í húsi í Vejrumbro, skammt frá Viborg í Danmörku. Kort/Google Maps

Kona og tvö börn hennar fundust látin í húsi í Vejrumbro, skammt frá Viborg í Danmörku, síðdegis í dag. Frá þessu greinir lögreglan í Mið- og Vestur-Jótlandi á Twitter og lætur þess getið að kringumstæðurnar beri þess vott að saknæm háttsemi hafi átt sér stað. Engin merki séu þó um að aðrir hafi komið þar að en konan, sem var 49 ára gömul, og börn hennar, 11 og 14 ára.

„Enn sem komið er bendir ekkert til þess að aðrir en hin látnu hafi verið á staðnum,“ skrifar lögreglan og bætir því við að tæknideildarfólk sé við rannsóknir á vettvangi auk þess sem nánustu ættingjum hafi verið tilkynnt um dauðsföllin.

Ekki væri allt með felldu

Mette Quistgaard, upplýsingafulltrúi lögreglunnar, segir í samtali við Ekstra Bladet að lögreglunni hafi borist tilkynning síðdegis í dag um að ekki væri allt með felldu í húsinu í Vejrumbro en upplýsingafulltrúinn tjáir sig ekki nánar um efni tilkynningarinnar.

Hefur lögregla lokað götum umhverfis húsið og boðar fréttatilkynningu með nánari upplýsingum er líða tekur á kvöldið.

Ekstra Bladet
TV2
VG

mbl.is