14 ára drengur átti að fá fúlgur fjár fyrir morð

Frá Stokkhólmi.
Frá Stokkhólmi. AFP

Lögreglan í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, veitti bíl eftirför sem vildi ekki stöðva fyrir lögreglu í hefðbundnu eftirliti í hverfinu Jordbro í gærkvöldi. 

Bíllinn nam staðar við veitingahús og fjórir farþegar bílsins reyndu að flýja lögregluna fótgangandi. Í ljós kom að vopn var að finna í bílnum.

Samkvæmt heimildum Aftonbladet er einn þeirra handteknu fjórtán ára drengur. Tveir þeirra handteknu hafi einnig verið á táningsaldri og einn maðurinn fullorðinn. 

Fram kemur á sænska miðlinum að fjórtán ára drengurinn hafi átt að fá greiðslu upp á sex stafa tölu fyrir morð en glæpaalda gengur nú yfir Stokkhólm. Hundrað þúsund sænskar krónur jafngilda tæplega 1,4 milljónum króna.  

Fimm unglingar handteknir um helgina 

Um er að ræða fimmtu handtökuna á ungum drengjum sem grunaðir eru um aðild að alvarlegum glæpum yfir einu og sömu helgina. Á föstudaginn voru 13 ára og 14 ára drengir stöðvaðir af lögreglu þar sem þeir voru „að fremja glæp“ með sjálfvirku skotvopni í Suður-Stokkhólmi. Drengirnir héldu því fram við lögreglu að þeir hefðu verið þvingaðir til þátttöku. 

Á laugardaginn voru tveir fimmtán ára drengir handteknir, grunaðir um að hafa skotið úr sjálfvirku skotvopni í Dalen. 

27 alvarlegir ofbeldisglæpir voru á skrá lögreglunnar í Stokkhólmi frá jóladegi. Um helmingur grunaðra árásarmanna er undir 18 ára að aldri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert