Árásarlisti „kúrdíska refsins“

Hanna Paradis yfirlögregluþjónn ræðir um ofbeldisölduna í Stokkhólmi á blaðamannafundi …
Hanna Paradis yfirlögregluþjónn ræðir um ofbeldisölduna í Stokkhólmi á blaðamannafundi á föstudaginn. AFP/Jessica Gow

Skálmöld ríkir nú í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi og hafa skotárásir og sprengingar gengið þar á víxl síðustu daga eins og mbl.is hefur fjallað um. Hefur lögreglu þar borist 100 manna liðsauki til viðbótar við 190 manna lið sem áður hafði verið kallað þar til aðstoðar.

Sænska ríkisútvarpið SVT kveðst nú hafa heimildir fyrir því að 36 ára gamall Kúrdi sem gengur undir nafninu „kúrdíski refurinn“, eða „kurdiske räven“ á sænsku, haldi úti lista yfir skotmörk en á þeim lista er að finna nöfn fólks sem hann óskar eftir að ráðist verði á og eru peningaverðlaun til höfuðs hverjum og einum.

Segir SVT að lögreglunni sé kunnugt um þennan meinta lista sem sé með „fyrstur kemur, fyrstur fær“-fyrirkomulagi. Sá sem fyrstur geri atlögu að einhverjum á listanum fái verðlaunaféð uppfylli árásin væntingar kúrdíska refsins sem er 36 ára gamall maður, búsettur í Tyrklandi um þessar mundir en með tengingu við Svíþjóð.

Máli sínu til stuðnings greinir ríkisútvarpið frá myndskeiði sem nú fer um samfélagsmiðla þar sem myndatökurmaður myndar annan, vopnaðan byssu, og sýnir myndskeiðið hann skjóta fjölda skota að íbúð í fjölbýlishúsi. Sé myndskeiðinu ætlað að vera því til jarteikna að árásin hafi verið framkvæmd svo krefjast megi verðlaunafjárins úr hendi kúrdíska refsins.

Mattias Andersson, starfandi lögreglustjóri, tekur til máls á blaðamannafundinum.
Mattias Andersson, starfandi lögreglustjóri, tekur til máls á blaðamannafundinum. AFP/Jessica Gow

Rótin deilur um fíkniefnamarkað í Sundsvall

„Sé slíkur listi til getum við ekkert tjáð okkur um hann hvort sem er,“ segir Rebecca Landberg, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Stokkhólmi, við SVT, „en lögreglan rær auðvitað að því öllum árum að útiloka og hindra frekari afbrot,“ heldur hún áfram.

Sjálfur hefur kúrdíski refurinn hlotið refsidóma í Svíþjóð og hefur SVT heimildir fyrir því að hann hafi kynt undir drjúgum hluta þess ófriðarbáls sem nú logar í höfuðstaðnum. Rót illdeilnanna munu vera átök um yfirráð á fíkniefnamarkaði í Sundsvall milli kúrdíska refsins og manns á þrítugsaldri og þeirra hópa sem þeir tilheyra.

„Kúrdíski refurinn“ er eftirlýstur á alþjóðavísu með svokallaðri rauðri tilkynningu …
„Kúrdíski refurinn“ er eftirlýstur á alþjóðavísu með svokallaðri rauðri tilkynningu Interpol. Ljósmynd/Skjáskot

Þörf fyrir liðsauka í Stokkhólmi

Hafa sumar árásanna verið gerðar á ættingja refsins og fjandmanns hans en sá kúrdíski mun hafa brugðist ókvæða við í kjölfar skotárásar á heimili föður hans, eftir því sem heimildarmaður SVT greinir frá. „Hann svífst einskis, hann er öruggur í Tyrklandi þar sem hann býr núna,“ segir heimildarmaðurinn.

„Eins og málin hafa þróast með skotárásum og sprengingum höfum við þörf fyrir liðsauka í Stokkhólmi til að fyrirbyggja fleiri manndráp í þessum væringum og til að geta haft eftirlit víðar,“ segir Mattias Andersson, starfandi lögreglustjóri, í fréttatilkynningu.

SVT
SVTII (tengist sprenging í Uppsala kúrdíska refnum?)
SVTIII (heimildarþátturinn Gangsterparadiset á SVT)
Expressen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert